Hlutabréf í Norwegian hækkuðu í gær um 10 prósent, en undanfarnir mánuðir hafa verið félaginu erfiðir. Félagið hefur glímt við taprekstur og hefur hækkun olíuverðs sérstaklega komið sér illa fyrir félagið.
Þá er stutt síðan samþykkt var að auka hlutafé félagsins um 17 milljarða, en það virðist fyrst og síðast hafa komið félaginu upp á ákveðinn stall til að eiga í formlegum viðræðum við önnur flugfélög.
Samkvæmt farþegaupplýsingum sem félagið birtir mánaðarlega, þá fjölgaði farþegum sem flugfélagið flutti í maí um 17 prósent miðað við sama mánuði í fyrra. Voru farþegarnir í maí 3,4 milljónir
Í gærmorgun hafði þýska blaðið Süddeutsche Zeitung það eftir Carsten Spohr, forstjóra Lufthansa samsteypunnar, að félagið hans sé að skoða kaup á Norwegian. Sagði Spohr að það væri hrina sameininga framundan í evrópska fluggeiranum og því töluðu allir við alla.
British Airways hafði einnig sýnt félaginu áhuga, og má því búast við að það dragi til tíðinda á næstunni þegar kemur að þessum norræna risa í flugrekstri.
Rekstrartekjur Norwegian á fyrstu þremur mánuðum ársins hækkuðu um þriðjung frá sama tímabili á síðasta ári og farþegum fjölgaði um prósent. Þrátt fyrir vöxtinn þá hafa ytri rekstrarskilyrði lággjaldaflugfélaga versnað töluvert upp á síðkastið, meðal annars vegna hækkunar á olíuverði og vaxtastigi í heiminum.