Aukning Airbnb-gistingar virðist hafa aukið sveigjanleika ferðaþjónustunnar á Íslandi, en dregið úr stöðugleika á íbúðamarkaði á sama tíma. Þar að auki er metið að sveitarfélög verði af hundruðum milljónum króna á ári hverju vegna rangrar skráningar Airbnb-íbúða í stöðugri útleigu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Íbúðalánasjóðs um stöðu Airbnb á Íslandi.
Í skýrslunni er farið yfir umfang Airbnb-gistingar á Íslandi, en í mars síðastliðnum voru skráðar um 6.300 gistieiningar á síðunni. Þar af taldi Íbúðalánasjóður að 1.400 íbúðir og 500 stök herbergi voru í stöðugri útleigu og ekki í hefðbundinni notkun sem íbúðarhúsnæði. Sú tala virðist hafa minnkað töluvert, en í ágúst í fyrra má ætla að hátt í 2.000 íbúðir og 800 herbergi voru í stöðugri útleigu á Airbnb.
30% skráðra íbúða og herbergja á Airbnb voru staðsett í miðborg og vesturbæ Reykjavíkur, 37% annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og 34% utan höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt gögnum Airdna er Reykjavík í öðru sæti meðal helstu höfuðborga í Vestur- og Suður- Evrópu þegar kemur að fjölda Airbnb-skráninga miðað við höfðatölu, en þær séu aðeins fleiri í Lissabon.
Árið 2016 voru vergar tekjur af útleigu á Airbnb hér á landi um 9,4 milljarðar, en í fyrra voru þær um 19,7 milljarðar. Vöxtur teknanna hefur því numið 110% milli ára. Gistinóttum á vegum Airbnb hefur einnig fjölgað, en samkvæmt skýrslunni hefur aukning hennar að stórum hluta staðið undir miklum vexti í gistingu erlendra ferðamanna undanfarin tvö ár. Þær tölur séu í ósamræmi við þá umræðu innan ferðaþjónustunnar að fjölgun erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll hafi ekki skilað sér í fjölgun gistinátta.
Hefur áhrif á fasteignaverð
Íbúðalánasjóður ályktar að svokölluð Airbnb-væðing ferðaþjónustunnar hafi aukið viðnámsþrótt greinarinnar gagnvart ytri áföllum, en hafi gert það að nokkru leyti á kostnað stöðugleika á íbúðamarkaði. Skammtímaleiga íbúða hafi aukist töluvert á undanförnum árum, en það valdi ruðningsáhrif á fasteignamarkaðinn og hækki fermetraverð. Samkvæmt útreikningum skýrslunnar eru uppsöfnuð áhrif Airbnb-gistingar á hækkun fasteignaverðs á Íslandi árin 2015-2017 metin allt að 5-9 prósentustig.
Skráningu ábótavant
Einnig er skráningu á íbúðum í stöðugri Airbnb-útleigu ábótavant, en í skýrslunni er gert ráð fyrir að að minnsta kosti 60% þeirra séu ekki skráð sem atvinnuhúsnæði, þrátt fyrir að lög um gististaði krefjist þess. Hagdeild Íbúðalánasjóðs metur svo að sveitarfélög verði árlega af hundruðum milljóna króna vegna þessarar misskráningar, jafnvel yfir milljarði, í formi fasteignagjalda vegna Airbnb-íbúða.