Kvika banki hf. og hluthafar GAMMA hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup og sölu á öllu hlutafé GAMMA. Þetta kemur fram í tilkynningu Kauphallarinnar.
Í tilkynningunni segir að félagið verði rekið áfram undir nafni GAMMA sem sjálfstætt dótturfélag Kviku banka. Markmið Kviku með kaupunum sé að styrkja bankann enn frekar á sviði eigna- og sjóðastýringar og erlendrar starfsemi.
Í árslok var eigið fé GAMMA 2.054 milljónir króna en eignir í stýringu félagsins námu 138 milljörðum króna og sjóðir í rekstri fyrirtækisins voru samtals 46. Í fyrra hagnaðist félagið um 626 milljónir, sem er tæplega fjórðungssamdráttur frá því árinu áður.
Stærstu eigendur GAMMA eru Gísli Hauksson og Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða GAMMA, en báðir eiga þeir 31 prósenta hlut í fyrirtækinu. Gísli er hættur störfum hjá fyrirtækinu og sinnir nú eigin fjárfestingum. Þar að auki eiga Guðmundur Björnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fyrirtækisins og eignarhaldsfélagið Straumnes, sem er í eigu Fenger-barna, hvor sinn 10 prósenta hlut. Valdimar Ármann, forstjóri GAMMA, á einnig 5 prósenta hlut í fyrirtækinu.
Í tilkynningunni segir að kaupverð fyrir allt útistandandi hlutafé GAMMA nemi 3.750 milljónum króna, m.v. stöðu félagsins í árslok 2017 og stöðu árangurstengdra þóknana sem eftir á að tekjufæra. Verði sú raunin munu 1162 milljónir renna til bæði Gísla og Agnars Tómasar, 375 milljónir til Guðmundar og Straumness og tæpir 190 milljónir til Valdimars Ármanns.