Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í dag forsetatilskipun (e. order) þar sem mælt er fyrir um það, að hætt verði að skilja að börn og foreldra ólöglegra innflytjenda á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, á meðan réttað er í málum foreldrana.
Óhætt er að segja að þær aðgerðir bandarískra yfirvalda, að aðskilja börn frá foreldrum sínum og geyma þau í búrum á meðan, hafi fallið í grýttan jarðveg víða, en síðustu fjórar forsetafrúr Bandaríkjanna, þar á meðal Melania Trump, núverandi forsetafrú, mótmæltu þessum aðgerðum með yfirlýsingum á síðustu tveimur dögum.
Trump hefur kennt Demókrötum í þinginu um, og sagt að það sé einungis verið að framfylgja lögum. Á það hefur verið bent, að það sé í reynd ekki raunin, heldur hafi stefnubreyting yfirvalda, frá því í apríl, leitt til þessara aðgerða. Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, hefur varið aðgerðirnar meðal annars með tilvitnunum í biblíuna.
White House misspells "Separation" at the top of the EO: pic.twitter.com/bxaF7sFj01
— Chris Geidner (@chrisgeidner) June 20, 2018
„Þetta snýst um að fjölskyldur séu saman,“ sagði Trump þegar hann undirritaði tilskipunina við formlega athöfn í Washington. „Ég var ekki hrifinn af því að fjölskyldur voru aðskildar,“ bætti hann við.
Hann sagði samt, að áfram yrði horft til þess að loka landamærum Bandaríkjanna fyrir þeim sem koma ólöglega til landsins, til að tryggja öryggi og ná stjórn á landamærunum.