Seðlabankinn hefur bætt við sig nýjan mælikvarða í greiningu og mótun peningastefnunnar. Mælikvarðinn gengur út á að mæla undirliggjandi verðbólgu og gefur tilfallandi breytingum í húsnæðisverði minna vægi. Þetta kom fram á kynningu á mælikvarðanum í Seðlabankanum í gær.
Lilja Sólveig Kro og Aðalheiður Guðlaugsdóttir, sérfræðingar á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabankans, sáu um kynninguna á mælikvarðann, en hann ber heitið Sameiginlegur þáttur vísitölu neysluverðs. Mælikvarðinn byggir á 38 undirvísitölum á neysluverði, þar sem sameiginlegir verðþættir allra vísitalnanna fá hæst vægi. Hann byggir á sams konar útreikningum annarra seðlabanka, en svipaður mælikvarði hefur verið notaður í Noregi, Svíþjóð og Kanada.
Samkvæmt Lilju og Aðalheiði er mest vægi gefið til þeirra verðþátta sem eru gengistengdir, líkt innfluttar vörur og þjónusta. Minnst vægi fær svo opinber þjónusta og húsnæðisverð. Mælikvarðinn var metinn út frá gögnum frá 1998 til síðasta árs, en hefði hann verið notaður fyrir sama tímabil hefðu sveiflur í verðbólgu verið minni þótt meðaltal verðbólgu hefði haldist óbreytt.
Seðlabankinn segir mælikvarðann vera nýtt mat á undirliggjandi verðbólgu og góða viðbót við aðra slíka mælikvarði sem Seðlabankinn hefur horft á. Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans bætti einnig við á fundinum að peningastefnunefnd bankans hafi nú þegar tekið þennan mælikvarða í notkun, ásamt öðrum, til þess að meta verðbólguþróun.
Kynning bankans á nýja mælikvarða sínum kemur út þremur vikum eftir birtingu skýrslu forsætisráðuneytisins um endurskoðun á peningastefnu Íslands. Í skýrslunni er meðal annars lagt til að verðbólgumarkmið bankans ætti að undanskilja húsnæðisverð til að draga úr skammtímasveiflum. Samkvæmt Lilju Sólveigu er nýi mælikvarðinn hins vegar ótengdur skýrslu forsætisráðuneytisins þar sem hann sé einungis notaður til að mæla undirliggjandi verðbólgu.