James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segist ekki hafa fengið neinar upplýsingar um það að Norður-Kórea ætli sér að afvopnast kjarnorkuvopnum og þá bendir ekkert til þess að kjarnorkuvopnaáætlun landsins hafi verið stöðvuð.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Mattis hélt í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, í gær.
Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta þá liggur ekki fyrir enn hvernig verður unnið úr fundinum sögulega í Singapúr, milli Trump og Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu.
It is hard to believe that the historic North Korea / Kim Jong Un summit was exactly one week ago. Truly amazing to see the lengths the left / the media will go through to change the narrative. pic.twitter.com/ct7u11YBDq
— Eric Trump (@EricTrump) June 20, 2018
Ítarlegar viðræður eiga að fara í gang á næstunni og verða Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, í leiðandi hlutverki í þeim fyrir hönd Bandaríkjanna.
Mattis sagði í samtölum við blaðamenn að ætti eftir að koma í ljós, hver staðan væri í reynd, eftir þennan fund.
Kim Jong Un hefur þegar farið í opinbera heimsókn til Kína, og fékk það höfðinglegar móttökur. Hann kom til fundarins í Singapúr með flugvél frá Air China, ríkisflugfélaginu í Kína, og flaug með henni til baka aftur. Kínverskir fjölmiðlar hafa skrifað um það að fundurinn hafi verið árangursríkur fyrir Norður-Kóreu og sterkt vinasamband Norður-Kóreu og Kína hafi verið undirsstrikað.
Trump hefur sagt að Kim Jong Un hafi grátbeðið um fundinn með honum. Afarkostir Bandaríkjamanna hafi verið þeir, að Norður-Kórea þyrfti að afvopnast kjarnorkuvopnum fyrir 2020.