Ekkert greiningarfyrirtæki í landinu hefur útbúið verðmat eða greiningu á HB Granda síðan Guðmundur Kristjánsson keypti 34,1 prósent hlut í félaginu á 21,7 milljarða króna í apríl síðastliðnum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun. Með kaupunum hafi myndast yfirtökuskylda sem um 90 prósent hluthafa hafi sagst ætla að hafna.
Í frétt Morgunblaðsins segir jafnframt að haft hefði verið samband við allar helstu greiningardeildir landsins til þess að spyrjast fyrir um af hverju engar greiningar hefðu verið gerðar og hvort búast mætti við verðmati frá þeim á næstunni. „Allir greiningaraðilar sögðu að ekkert nýlegt verðmat á HB Granda lægi fyrir og ekki væri forgangsatriði að gefa út greiningu á fyrirtækinu. Starfsmaður hjá IFS greiningu sagði að enginn viðskiptavinur þeirra hefði kallað eftir greiningu á fyrirtækinu og því hefði það ekki verið forgangsmál hjá þeim að verðmeta félagið.“
Enn fremur segir að Arion banki hafi ekki gert greiningu á fyrirtækinu, því Arion hafi verið hluthafi þegar HB Grandi var skráður á markað. Nú sé hins vegar ekkert því til fyrirstöðu og sagði viðmælandi Morgunblaðsins innan greiningardeildarinnar að það væri á döfinni að verðmeta fyrirtækið.
„Aðili sem Morgunblaðið setti sig í samband við sagði að greiningardeildirnar teldu það skila litlum árangri og vera tilgangslaust að greina HB Granda sökum þess að eigendur félagsins héldu flestir á stórum hlut í félaginu og stunduðu lítil viðskipti með þá, en fjórir stærstu hluthafar HB Granda eiga rétt tæplega tvo þriðju félagsins. Velta með bréf félagsins á markaði hefur verið lítil og því voru flest greiningarfyrirtæki landsins sammála um að HB Grandi væri ekki í forgangi hjá þeim,“ segir í fréttinni.
Guðmundur nýr forstjóri félagsins
Meirihluti stjórnar HB Granda valdi Guðmund Kristjánsson sem forstjóra útgerðarfélagsins. Þetta kom fram í tilkynningu á vef Kauphallarinnar fyrir tveimur dögum.
Í tilkynningunni segir að meirihluti stjórnar félagsins hafi tekið ákvörðunina á fundi samhliða ákvörðun um gerð starfslokasamnings fyrir Vilhjálm Vilhjálmsson, fráfarandi forstjóra félagsins. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum á ný og var Magnús Gústafsson kjörinn nýr stjórnarformaður.
Guðmundur Kristjánsson er fyrrverandi forstjóri útgerðarfélagsins Brims, en eins og Kjarninn hefur greint frá keypti hann 34,1 prósent eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda. Kaupin námu tæplega 21,7 milljörðum króna.
Guðmundur bauð sig svo fram í stjórn félagsins en var valinn stjórnarformaður á aðalfundi HB Granda þann 4. maí síðastliðinn.