Innherjasvikamál fyrrverandi forstöðumanns leiðakerfisstjórnunar Icelandair, auk tveggja annarra, verður þingfest í vikunni en talið er að brot mannanna hafi staðið yfir í rúmlega sextán mánuði. Upptöku á rúmum 90 milljónum króna er krafist í málinu.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.
Jafnfram er greint frá því að talið sé að mennirnir þrír sem grunaðir eru um að hafa notfært sér innherjaupplýsingar í viðskiptum með hlutabréf í Icelandair hafi hagnast um rúmlega 61 milljón króna með gjörningnum. Hin ætluðu brot eigi að hafa átt sér stað á tímabilinu frá október 2015 til febrúar 2017.
Einn hinna ákærðu er samkvæmt Fréttablaðinu fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfisstjórnunar Icelandair en hann hafði stöðu fruminnherja hjá félaginu. „Hinir tveir eru grunaðir um að hafa nýtt sér upplýsingar frá honum til að hagnast á viðskiptum með hlutabréf í félaginu. Auk mannanna þriggja er félagið Fastrek, sem hét áður VIP Travel, ákært í málinu en viðskiptin með hlutina voru gerð í nafni félagsins.“
Enn fremur kemur fram að VIP Travel hafi eitt sinn verið tengt kampavínsklúbbnum VIP Club en greiðslur til klúbbsins hafi farið í gegnum félagið. Einn hinna ákærðu sé fyrrverandi eigandi Fastreks. Sá hafi jafnframt verið áður rekstrarstjóri kampavínsklúbbsins Shooters sem nú sé starfræktur á sama stað og VIP Club var áður til húsa.
„Fyrrgreindum forstöðumanni og rekstrarstjóra er í málinu gefið að sök að hafa í október og nóvember 2015 nýtt VIP Travel til að kaupa hluti í Icelandair til þess eins að selja hlutina skömmu eftir að þriðja ársfjórðungsuppgjör félagsins var birt. Þeim er gefið að sök að hafa keypt sölurétt í júlí 2016 en þá veðjuðu þeir á móti á lækkun hlutabréfanna í kjölfar annars ársfjórðungsuppgjörs þess árs.
Að endingu er forstöðumanninum og rekstrarstjóranum gefið að sök að hafa í janúar og febrúar 2017 keypt sölurétt í félaginu og veðjað á að verð á hlutum í því myndi lækka í kjölfar afkomuviðvörunar sem birt var 1. febrúar það ár. Hagnaður mannanna af þessu á að hafa numið tæpum 25 milljónum króna.
Rekstrarstjórinn á síðan að hafa hvatt þriðja manninn, sem ákærður er í málinu, til hins sama. Á hann að hafa keypt sölurétt og selt í félaginu sama dag og afkomuviðvörunin var gefin út. Á hagnaður vegna þessa að hafa numið rúmum 20 milljónum króna,“ segir í frétt Fréttablaðsins.