Ekvador skrifaði í morgun undir fríverslunarsamning við Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Samningnum er ætlað að létta hindrunum og auðvelda viðskipti og fjárfestingar á milli Ekvador og aðildarríkja EFTA. Þau eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneyti utanríkisviðskipta Ekvador sem send var út í dag.
Skrifað var undir samninginn á Hólum í Hjaltadal í morgun. Ráðherrafundur EFTA hófst á Sauðárkróki í gær og mun honum ljúka á morgun. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd Íslands.
Pablo Campana, ráðherra utanríkisviðskipta í Ekvador, skrifaði undir samninginn í morgun. Hann segir samninginn mikilvægan fyrir alla aðila og að hann opni nýtt markaðssvæði fyrir nær allar útflutningsvörur Ekvador, markaðssvæði sem telur um 14 milljónir íbúa. „Það eru góðar fréttir fyrir útflytjendur, framleiðendur og fjárfesta, bæði í Ekvador og innan EFTA-ríkjanna. Viðskipti milli þessara aðila eru nú þegar mikil og við gerum ráð fyrir að þau verði enn meiri eftir undirritun samningsins. Ekvador er land tækifæranna og með samningnum stígur Ekvador stórt skref nær helstu velmegunarríkjum Evrópu. Þessu til viðbótar hafa verið sett ný lög um erlendar fjárfestingar í Ekvador sem munu veita réttarvissu, fyrirsjáanleika og skattaívilnanir vegna erlendra fjárfestinga,“ segir hann.
Í tilkynningunni segir að helstu útflutningsvörur Ekvador séu ávextir og grænmeti, þá helst bananar, en auk þess gull, kakóvörur, rósir, fiskiolíur, rækjur og önnur sjávarföng. Útflutningsverðmæti til ríkja EFTA hafi numið á síðasta ári um 110 milljónum Bandaríkjadala. Innflutningur Ekvador frá EFTA-ríkjunum hafi á sama tíma numið um 120 milljónum dala en meðal helstu innflutningsvaranna séu lyf, áburður, úr, lækningatæki og ýmiss konar efni.
Í samningnum milli Ekvador og EFTA eru kveðið á um markaðsaðgengi fyrir vörur og þjónustu, upprunamerkingar, hollustuhætti og afnám tæknilegra hindrana í milliríkjaviðskiptum.