Sérfræðingahópur um færni- og menntunarþörf á íslenskum vinnumarkaði leggur til að landfærnisráð verði stofnað til að greina færni vinnuafls hér á landi. Íslendingar séu eftirbátar annarra þjóða í slíkri greiningu, en ráðið yrði mikilvægt til að meta áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar. Þetta kom fram á fundi velferðarráðuneytisins í morgun.
Nokkuð um of- og vanmenntun
Á fundinum birtu Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og sérfræðingahópurinn niðurstöður úr skýrslum sínum um mat á færni vinnuafls á Íslandi. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar er menntunarstig vinnuafls á Íslandi nokkuð lægra en á hinum Norðurlöndunum, en hlutfall vinnuafls með grunnskólapróf eða minna hefur þó lækkað á síðustu árum og er nú á pari við meðaltal OECD-ríkja.
Hagfræðistofnun taldi einnig nokkuð vera um bæði of- og vanmenntun í ýmsum störfum á Íslandi, mest væri um ofmenntað vinnuafl í fiskveiðum og vannmentun var sérstaklega sýnileg í sérfræðistörfum í eðlis-, verk-og stærðfræði. Sömuleiðis benti Sigurður Björnsson, starfsmaður Hagfræðistofnunnar, á að ríflega 60% kennaramenntaðra starfi við kennslu eða uppeldisfræði, en það hlutfall hefur haldist nokkuð jafnt síðan 2008.
Ísland eftirbátur annarra ríkja
Karl Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Vinnumálastofnun, birti niðurstöður skýrslu sérfræðingahópsins þar sem fjallað er um þörf þess að framkvæma svokallaða færnispá fyrir íslenska vinnumarkaðinn. Með henni yrði kerfisbundið mat lagt á færni-, menntunar-og mannaflaþörf á vinnumarkaði til lengri tíma, en samkvæmt Karli er Ísland eftirbátur annarra ríkja í þessum efnum.
Meðal tillagna hópsins er að skoðað verði hvort Hagstofa Íslands eigi að fá formlegt hlutverk við færnispágerð til langs tíma auk þess sem starfsgreinanefnd fái formlegt ráðgefandi hlutverk í spáferlinu. Einnig var lagt til að svokallað landfærnisráð yrði stofnað, en fyrirmynd þess yrði sótt til Írlands og Finnlands.
Færnispár yrðu mikilvægar fyrir stefnumótun ríkis, sveitafélaga og menntastofnanna hér á landi, sérstaklega í ljósi þeirra örra tæknibreytinga sem átt hafa sér stað á síðustu árum og gjarnan eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna. Samkvæmt sérfræðingahópnum kallar aukin óvissa, hraðari tæknibreytingar og flókari samsetning efnahagslífsins á breyttar áherslur í atvinnu-, mennta og vinnumarkaðsmálum.