Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar telur að ákvæði um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa, sem og siðareglur þeirra, hafi verið brotnar þegar Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sakaði starfsfólk Reykjavíkurborgar um trúnaðarbrest og brot á starfsskyldum. Þetta kemur fram í minnisblaði um framlagningu framboðslista við kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum borgarinnar sem lagt var fram í gær. RÚV greindi frá í gærkvöldi.
Í fréttinni kemur fram að Marta hafi ekki dregið ásakanirnar til baka.
Á fyrsta fundi borgarstjórnar sem fram fór þann 19. júní síðastliðinn fór fram umræða um vinnulag við framlag framboðslista. Í ræðu Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks við umræðu um tillögu borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um stofnun umhverfis- og heilbrigðisráðs hélt borgafulltrúinn því fram að framlagning sameiginlegs lista Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins í þau ráð, nefndir og stjórnir sem voru á dagskrá borgarstjórnar væri trúnaðarmál. Listinn innihéldi trúnaðarupplýsingar sem aðrir borgarfulltrúar ættu ekki að hafa aðgang að fyrir fund borgarstjórnar.
Í minnisblaðinu stendur að ekki sé unnt að gera sér grein fyrir því hvað olli því að sumir borgarfulltrúar virtust halda það á fundi borgarstjórnar að trúnaður gilti um margnefnda lista, án tillits til skýrra ákvæða sveitarstjórnarlaga og samþykkta.
„Fundir borgarstjórnar eru opnir og öll fundargögn þeirra eru birt á vef Reykjavíkurborgar um leið og boðað er til fundar. Þar að auki er ekki að finna nein ummerki þess í erindi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins að um framlagða lista skuli gilda einhver trúnaður enda er hvorki tölvupósturinn trúnaðarmerktur né excel-skjalið sem fylgdi.
Þar að auki er vandséð hvers vegna borgarfulltrúarnir töldu efnislega nauðsyn á því aðhalda nöfnum leyndum frá áhugasömum áhorfendum/hlustendum í nokkra klukkutíma áður en kosning fór fram þar sem ekki er á nokkurn hátt um að ræða viðkvæmar persónulegar upplýsingar sem eigi að fara leynt,“ skrifar Helga.
Skrifstofustjóri segir að listar sem þessir geti aldrei verið trúnaðarmál og vísar hún til sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Í 16. grein sveitarastjórnarlaga segir að fundir sveitarstjórna fari fram fyrir opnum tjöldum og í 15. grein laganna segir að dagskrá funda skuli fylgja fundarboði, sem og þau gögn sem sveitarstjórnarfólk þurfi til að geta tekið upplýstar ákvarðanir á fundinum. Í samþykkt borgarstjórnar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar segir að þegar kosningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum borgarinnar séu annars vegar skuli upplýsingar um nöfn þeirra sem lagt er til að taki sæti sendar forsætisnefnd.
„Það er því beinlínis kveðið á um það að upplýsingar um einstaka framboð skuli liggja fyrir strax þegar boðað er til borgarstjórnarfundar,“ segir í minnisblaðinu.
Lagt til að námskeið verði haldið
Helga Björk hafði óskað eftir því þann 13. júní að fá afhendan framboðslista allra flokka í síðasta lagi kl. 14:00 föstudaginn 15. júní svo hægt væri að hefja yfirferð þeirra með hliðsjón af kjörgengisskilyrðum, jafnréttissjónarmiðum og öðrum almennum atriðum. Hún greinir frá því að laust eftir klukkan tvö daginn áður, þann 12. júní, hafi henni borist fyrsta fyrirspurnin frá starfsmanni borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins vegna kosninga í ráð og nefndir. Sami starfsmaður hafi sent henni annað erindi skömmu fyrir klukkan fjögur sama dag þar sem hann spurði hvort ekki þurfi að skila tilnefningum í ráð og nefndir næstkomandi föstudag, þann 15. júní.
Skrifstofustjórinn fundaði með umræddum starfsmanni og Eyþóri Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokks 14. júní þar sem kosningar í ráð og nefndir voru rædd. Þar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins myndu skila sameiginlegum listum föstudaginn 15. júní. Þann sama dag skilaði meirihlutinn í borgarstjórn sameiginlegum lista til yfirferðar.
Þann 16. júní, eða daginn eftir, hafði listinn frá minnihlutanum ekki enn borist skrifstofu borgarstjórnar. Þegar fyrirspurn var send um morguninn til starfsmanns borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins barst svar um kvöldið þar sem sagði að gögnin kæmu daginn eftir.
Samkvæmt minnisblaðinu bárust listarnir ekki fyrr en þremur heilum dögum eftir að frestur til að skila þeim rann út, rétt eftir klukkan 9 að kvöldi mánudagsins 18. júní. Athugasemdir voru gerðar við gögnin, listarnir voru meðal annars ekki uppsettir á réttan hátt, þar voru ekki tilnefndir skrifarar og undirskriftir vantaði sem er ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög. Yfirferðar á listunum og gögnum þeim tengdum lauk ekki fyrir skömmu áður en fundur borgarstjórnar hófst kl. 14 þann 19. júní síðastliðinn.
Lagt er til í minnisblaðinu að forsætisnefnd samþykki að námskeið verði haldið fyrir borgarfulltrúa þar sem munurinn á opnum og lokuðum fundum verði kynntur, muninn á fundargögnum slíkra funda og hvaða gögn skulu merkt trúnaðargögn. Auk þess verði farið yfir hvers vegna ákvæði eru um það í samþykktum að fundargögn borgarstjórnar séu öllum aðgengileg.
Brotið gegn siðareglum
Varðandi fullyrðingar Mörtu um trúnaðarbrest létu nokkrir borgarfulltrúar ummæli falla þar sem fram komu ásakanir í garð starfsmanna Reykjavíkurborgar, þar með talið í garð Helgu Bjarkar skrifstofustjóra, starfsmanna skrifstofu borgarstjórnar og allra starfsmanna Ráðhúss Reykjavíkur, samkvæmt minnisblaðinu.
Helga bendir að í umræðunni hafi komið upp ásakanir um að starfsmenn hafi brotið trúnað, lekið trúnaðargögnum og/eða brotið starfsskyldur sínar á alvarlegan hátt. Borgarfulltrúinn Hildur Björnsdóttir hafi tekið til máls á fundinum, haft uppi ásakanir um leka á trúnaðargögnum og nafngreindi undirritaða í ræðustól, vitandi það að enginn maður utan borgarstjórnar getur tekið til máls á borgarstjórnarfundi.
Helga telur að bæði ákvæði um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa og siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg hafi verið brotnar í tilvitnaðri umræðu þegar starfsmenn Reykjavíkurborgar voru ásakaðir um trúnaðarbrest og brot á starfsskyldum sínum án þess að það hafi síðar verið leiðrétt.
Hún segir jafnframt að samkvæmt sveitarstjórnarlögum beri sveitarstjórnum að setja sér siðareglur sem ná til allra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn og nefndum og ráðum sem sveitarstjórn skipar. Á grundvelli sömu laga hafi Samband íslenskra sveitarfélaga skipað nefnd sem veitt getur álit um siðareglur og ætluð brot á þeim. Helga óskar eftir því að forsætisnefnd taki til skoðunar að grípa til viðeigandi ráðstafana, þar með talið að leita álits siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.