Tveir stjórnarmenn í HB Granda studdu ekki að Vilhjálmi Vilhjálmssyni yrði vikið úr starfi forstjóra á fimmtudaginn. Um er að ræða þær Rannveigu Rist, varaformann stjórnar, og Önnu G. Sverrisdóttur. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins í morgun.
Hins vegar ríkti samstaða í stjórn um að ráða stjórnarformanninn Guðmund Kristjánsson, aðaleiganda Brims sem keypti nýverið 34,1 prósenta hlut í útgerðinni, sem forstjóra HB Granda. Hann sagði starfi sínu lausu sem forstjóri Brims eftir ráðninguna.
Rannveig og Anna töldu, samkvæmt heimildum Markaðarins, að rétt væri að bíða með að ráða nýjan forstjóra að minnsta kosti þar til yfirtökutilboð Brims í HB Granda væri um garð gengið.
Fjárfestar hafa frest fram á föstudag til að taka afstöðu til þess. Guðmundur taldi hins vegar æskilegt að það lægi fyrir hver yrði forstjóri útgerðarinnar á meðan yfirtökutilboðið væri enn í gildi til þess að það kæmi fjárfestum ekki í opna skjöldu, segir í fréttinni.
Meirihluti stjórnar HB Granda valdi Guðmund sem forstjóra útgerðarfélagsins þann 21. júní síðastliðinn. Í tilkynningu á vef Kauphallarinnar sagði að meirihluti stjórnar félagsins hefði tekið ákvörðunina á fundi samhliða ákvörðun um gerð starfslokasamnings fyrir Vilhjálm Vilhjálmsson, fráfarandi forstjóra félagsins. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum á ný og var Magnús Gústafsson, fyrrverandi forstjóri Coldwater í Bandaríkjunum, kjörinn nýr stjórnarformaður.
Guðmundur Kristjánsson er fyrrverandi forstjóri útgerðarfélagsins Brims, en eins og Kjarninn hefur greint frá keypti hann 34,1 prósent eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda. Kaupin námu tæplega 21,7 milljörðum króna. Guðmundur bauð sig svo fram í stjórn félagsins en var valinn stjórnarformaður á aðalfundi HB Granda þann 4. maí síðastliðinn.
Samkvæmt Markaðinum bar ráðningu Guðmundar í embætti forstjóra brátt að og á hún að hafa komið mörgum stórum hluthöfum í HB Granda á óvart, ekki síst í ljósi þess að hann hafði aðeins tæplega tveimur mánuðum áður verið kjörinn í stjórn sem formaður.
„Guðmundur á að hafa látið í það skína í samtölum við hluthafa að ekki stæði til á næstunni að ráða nýjan forstjóra í stað Vilhjálms. Þeir hafi hins vegar margir hverjir engu að síður átt von á því að nýr forstjóri yrði síðar fenginn að félaginu enda hafi Guðmundur ekki farið leynt með þau áform sín að vilja ná fram breytingum á rekstri fyrirtækisins. Þeir hluthafar gerðu þó fæstir ráð fyrir því að Guðmundur sjálfur myndi verða forstjóri fyrirtækisins,“ segir í Markaðinum.