Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogsbæjar lagði til við bæjarstjórn í gær að laun kjörinna fulltrúa, þar með talið bæjarstjóra Kópavogs, yrðu lækkuð um 15 prósent. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjóranum. Tillögunni var vísað til forsætisnefndar með öllum greiddum atkvæðum.
„Launaþróun kjörinna fulltrúa hefur sætt gagnrýni undanfarnar vikur og mánuði eða allt frá úrskurði kjararáðs í lok árs 2016. Ég tel rétt að bregðast við þeirri gagnrýni með launalækkun og lagði til við bæjarstjórn Kópavogs að laun kjörinna fulltrúa, þar með talið bæjarstjóra Kópavogs, yrðu lækkuð um 15%,“ segir hann.
Tillagan hljómar á þá leið að bæjarstjórn Kópavogs samþykki að lækka laun kjörinna fulltrúa og laun bæjarstjóra um 15% við upphaf nýs kjörtímabils.
Í greinargerð með tillögunni segir að í kjölfar úrskurðar kjararáðs um kjör þingmanna hafi bæjarstjórn Kópavogs samþykkt á nýliðnu kjörtímabili að hækka laun kjörinna fulltrúa og bæjarstjóra hjá Kópavogsbæ.
„Hækkunin tók þó ekki mið af úrskurði kjararáðs heldur var hækkunin lægri en þar var kveðið á um og tók þess í stað mið af þróun launavísitölu á vinnumarkaði. Engu að síður hefur komið fram gagnrýni á launaþróun þessara aðila sem og kjör annarra kjörinna fulltrúa í landinu m.a. af hálfu forystufólks á vinnumarkaði. Því er lagt til að launin lækki í upphafi kjörtímabils um 15% frá því sem þau eru nú," segir í greinargerðinni.
Margrét Friðriksdóttir lagði til að tillögu Ármanns Kr. Ólafssonar verði vísað til úrvinnslu forsætisnefndar. Var það samþykkt með 11 atkvæðum.