Starfshópur Reykjavíkurborgar leggur til að borgin auki niðurgreiðslur til dagforeldra um fjórðung og að innleiddur verði 200.000 kr. árlegur aðstöðustyrkur og 300.000 kr. stofnstyrkur til þeirra. Þetta kemur fram í nýbirtri fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt tilkynningunni hefur starfshópurinn, undir formennsku Þórlaugar B. Ágústsdóttur, kynnt tillögur sínar fyrir frístundaráði. Tillögurnar snúa allar að endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík.
Styrkir og leiguhúsnæði
Ein tillagna starfshópsins er sú að borgin skuli bjóða dagforeldrum sem starfi tveir saman húsnæði á hóflegu leiguverði undir starfsemina og að farið verði í kynningarátak og auglýsingaherferð til að fjölga dagforeldrum með tilvísun til þessa möguleika á húsnæði.
Þá sé einnig lagt til að hækka skuli niðurgreiðslur til dagforeldra, þannig að kostnaður foreldra verði sambærilegri við það ef barn væri á leikskóla. Í fyrsta áfanga eigi niðurgreiðslurnar að hækka um fjórðung, eða um tæpar 14 þúsund krónur á mánuði.
Starfshópurinn leggur einnig til að innleiddir verði tvenns konar styrkir til styrktar dagforeldrum, annars vegar 200.000 króna árlegur aðstöðustyrkur og hins vegar 300.000 króna stofnstyrkur til að mæta kostnaði vegna aðlögunar á húsnæði og kaupa á nauðsynlegum aðbúnaði.