Innstreymi erlends fjármagns nam 133,8 milljörðum í fyrra, þaðan af voru 83,9 þeirra frá Bandaríkjunum. Stærsti hluti innflæðisins fór í skráð hlutabréf eða aðrar fjárfestingar, en erlendir fjárfestar hafa beint sjónum sínum þangað í auknum mæli eftir að sérstök bindiskylda var sett á innflæði fjármagns árið 2016. Þetta kemur fram í nýbirtu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar á vef Alþingis.
Fyrirspurn Þorsteins beindist að magni og samsetningu innstreymis á erlendu áhættufjármagni til Íslands á síðustu tveimur árum. Samkvæmt svari fjármálaráðherra námu erlendar fjárfestingar 95,4 milljörðum króna árið 2016 og 133,8 milljörðum króna í fyrra.
Vogunarsjóðir í Arion fyrirferðamestir
Bindiskyldan, sem innleidd var um mitt ár 2016 og heimilar Seðlabankanum að binda allt að 75% erlendra nýfjárfestinga, virðist hafa haft agerandi áhrif á fjármagnshreyfingar til Íslands. Þannig hafi engar erlendar fjárfestingar komið til landsins á seinni hluta ársins 2016 og þrír fjórðu hlutar innstreymisins árið 2017 eru tilkomnir vegna kaupa vogunarsjóða á hlut í Arion banka.
63% frá Bandaríkjunum
Fjármagninu var skipt ójafnt milli landa, en alls festu erlendir fjárfestar frá 36 löndum peninga sína á Íslandi í fyrra og þar af komu 63% þeirra frá Bandaríkjunum. Næst stærsti hópurinn var svo frá Lúxemborg, en þaðan komu 18% allra erlendra fjárfestinga.
Einnig breyttist samsetning erlends gjaldeyris nokkuð milli ára, en eftir að bindiskyldan var innleidd jókst erlend fjárfesting á skráðum hlutabréfum hérlendis til muna á meðan að fjárfesting í íslenskum ríkisskuldabréfum féll um helming. Bindiskyldan virðist því fyrst og fremst hamla fjárfestunum að stunda vaxtamunaviðskipti með skuldabréf, en annarskonar fjárfestingar eru enn arðbærar í augum þeirra.
Þó er bætt við í svari fjármálaráðherra að óvíst sé hversu mikinn hluta innstreymisins í skráð hlutabréf megi rekja til bindiskyldunnar þar fjárfestingar í íslenskum hlutabréfum eru nú álitlegri vegna bættra efnahagsaðstæðna.