Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fundaði þrjátíu sinnum á árunum 2015 til 2017, eða átta sinnum árið 2015, tólf sinnum árið 2016 og tíu sinnum árið 2017. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um upplýsingamál sem birtist í gær.
Björn Leví spyr hvort skýringar séu á því hvers vegna mál bíði allt að 392 daga frá kæru og þar til úrskurður er kveðinn upp.
Í svari ráðherra er bent á að meðalmálsmeðferðartíminn styttist milli áranna 2017 og 2018 úr 391 degi að meðaltali í 210 daga, eða um 46 prósent. Í fyrstu skýrslu forsætisráðherra, sem lögð var fram á Alþingi í maí 2016, segir að málsmeðferðartíminn hafi ekki styst eins og vonir hafi staðið til. Ástæðuna sé líklega fyrst og fremst að rekja til aukins fjölda erinda, þar með talið kærumála, til nefndarinnar. Þessi þróun hafi meðal annars vera talin stafa af breytingum á gildissviði upplýsingalaga, af aukinni umfjöllun um nefndina í fjölmiðlum og af vitundarvakningu almennings um kæruleið til nefndarinnar.
Umfang kærumála vaxið
Samhliða þessari þróun hefur umfang einstakra kærumála vaxið, segir í svarinu. Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins árið 2008 hafi nefndinni til að mynda verið nauðsynlegt að leysa úr rétti til aðgangs að umfangsmiklum gagnasöfnum í fórum stjórnvalda, til dæmis hjá Þjóðskjalasafni og Fjármálaeftirlitinu. Loks sé fyrirhuguðum aðgerðum til að stytta málsmeðferðartíma nefndarinnar lýst, það er að bjóða laganemum starfsnám hjá nefndinni og ráða sumarstarfsmann.
Í svarinu er bent á að í annarri skýrslu forsætisráðherra frá því í maí 2017 komi fram að afrakstur þessara aðgerða hafi birst í auknum fjölda úrskurða. Ástæða sé til að ætla að málsmeðferðartími nefndarinnar hafi náð hámarki árið 2016, þar sem 391 dagur leið að meðaltali frá kæru til úrskurðar. Þessi ályktun fái stoð í þriðju skýrslu forsætisráðherra frá því í maí 2018, þar sem fram kemur að sama tala fyrir árið 2017 hafi verið 210 dagar.
Ráðherra segir að hvað einstök mál varði geti málsmeðferðin tafist af ýmsum öðrum ástæðum en önnum í starfi úrskurðarnefndarinnar almennt, svo sem af örðugleikum við að afla nauðsynlegra gagna.
Markmiðið að meðalmálsmeðferðartími verði 90 dagar
Björn Leví spyr jafnframt hvort ráðherra telji að ásættanlegt sé að nefndarmenn úrskurðarnefndar um upplýsingamál starfi í hlutastarfi í ljósi þess hve langur meðalafgreiðslutími mála er hjá nefndinni.
Ráðherra segir að markmið forsætisráðuneytisins sé að meðalmálsmeðferðartími kærumála sem lýkur með úrskurði verði 90 dagar. Starfshlutfall nefndarmanna sé eitt þeirra atriða sem munu koma til skoðunar til að ná því markmiði.
Enn fremur spyr Björn Leví hvaða sjónarmið séu lögð til grundvallar varðandi forgangsröðun mála sem tekin eru til afgreiðslu hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. „Meginreglan er sú að kærur fá afgreiðslu í þeirri röð sem þær berast. Sú röð getur þó riðlast vegna tafa við gagnaöflun eða vegna umfangs og eðlis mála,“ segir í svarinu. Við þetta megi bæta að reynt sé að hraða meðferð kærumála fjölmiðla eins og kostur er með hliðsjón af hlutverki þeirra í lýðræðissamfélagi.