Mikilvægt er fyrir Íslendinga að greiða leið innflytjenda að landinu þar sem koma þeirra mun hafa góð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif. Mögulegar leiðir til þess að ná því markmiði eru meðal annars gagnasöfnun um félagslega stöðu innflytjenda auk tvíhliða aðlögunnar innflytjenda og heimafólks. Þetta kemur fram í grein Lilju Daggar Jónsdóttur, hagfræðings og MBA, sem birtist í nýjasta tölublaði Vísbendingar sem kom síðastliðinn fimmtudag.
í greininni beinir Lilja sjónum að hlutfall erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði, en það hefur hækkað úr 8% árið 2009 í 12% árið 2017. Samkvæmt henni er þróunin hérlendis í takti við það sem hefur sést um alla Evrópu þar sem fjöldi innflytjenda hefur almennt verið á uppleið. Ísland sé raunar að bætast frekar seint í hóp landa þar sem hlutfall innflytjenda af mannfjölda hefur aukist, en nú nálgast íslenska hlutfallið ört hlutfall nágrannalanda okkar í Evrópu.
Óttinn sjaldnast á rökum reistur
Lilja bendir einnig á algengan ótta heimafólks við að innflytjendur „steli störfum þess,“ en samkvæmt henni er sá ótti nær undantekningarlaust ekki á rökum reistur. Þvert á móti þurfa Íslendingar á innflytjendum að halda, þótt að upplifun margra sé sú að þeir þarfnist okkar.
Vegna lækkandi fæðingartíðni og hækkandi meðalaldurs muni þörf Íslendinga á erlendu vinnuafli vaxa til muna á næstu árum, vilji þeir styðja við lífeyrisskuldbindingar framtíðar og viðhalda þeim lífsgæðum sem þeir þekkja.
Viðhorfið ræður úrslitum
Þar sem innflytjendur eru mikilvægir íslensku samfélagi nefnir Lilja nokkrar tillögur að því hvernig Ísland gæti tekið betur á móti þeim. Meðal þeirra er gagnasöfnun um líðan og félagslega stöðu innflytjendanna og tvíhliða aðlögun, en hún miðar að því að innfæddir kynnist menningarsamfélagi innflytjenda og öfugt.
Að lokum bætir Lilja við að viðhorf heimafólks gagnvart innflytjendum ráði úrslitum um hversu vel tekst til. Þótt flestir viðurkenni jákvæð efnahagsleg áhrif fólksflutninga mæta innflytjendur oftar en ekki einhvers konar andstöðu í sínu nýja samfélagi. Ekki dugi að gera lítið úr þeirri andstöðu en nauðsynlegt sé að ræða hana og byggja þá umræðu á staðreyndum.