Forsætisnefnd tók til umfjöllunar á fundi sínum þann 5. mars ábendingu um ótímabæra birtingu á efni bréfs umboðsmanns Alþingis til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í tilefni af umfjöllun hennar um ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt.
Í bréfi umboðsmanns frá því 2. mars síðastliðinn kom fram að hann mundi ekki gera bréfið opinbert fyrr en það hefði verið afhent og lagt fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Bréfið var hins vegar aðgengilegt í svokallaðri fundagátt við móttöku þess. Fjallað var um efni þess í Fréttablaðinu 5. mars 2018 áður en það var lagt fyrir nefndina. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur af þessu tilefni ákveðið að gögn, sem ekki varða einstök þingmál sem hún hefur til meðferðar, verði ekki aðgengileg í fundagátt nema samkvæmt ákvörðun hennar.
Þetta kemur fram í svari forseta Alþingis við fyrirspurn frá Óla Birni Kárasyni um meðferð trúnaðarupplýsinga og skyldur þingmanna sem birtist á fimmtudaginn í síðustu viku.
Ekki fengið kæru um „leka“
Óli Björn spurði hvort forsætisnefnd hefði fengið kvörtun, kæru eða ábendingu vegna „leka“ á trúnaðarupplýsingum sem þingnefndir eða þingmenn hafa fengið. Hann spurði jafnframt hvort forsætisnefnd hefði gripið til einhverra ráðstafana eða kannað réttmæti slíkra kvartana.
Í svarinu segir að frá og með 143. löggjafarþingi hafi forsætisnefnd ekki fengið til meðferðar kæru um leka á trúnaðarupplýsingum sem þingnefndir eða þingmenn hafa fengið til umfjöllunar.
Í svarinu segir þó að nefndin hafi tvívegis fjallað um meðferð trúnaðarupplýsinga í þingnefndum. Í fyrra sinn hafi það verið í tilefni af ósk formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem farið var fram á að forsætisnefnd tæki til umræðu meðferð trúnaðargagna í þingnefndum og aðgengi að gögnum þingnefnda á lokuðu vefsvæði þeirra, eða svokallaðri fundagátt.
Ekki hafi verið vísað til ákveðins máls eða upplýsinga. Á fundi forsætisnefndar þann 5. febrúar síðastliðinn hafi málið verið rætt og samþykkt að forseti mundi, í samráði við skrifstofu þingsins og nefndasvið þess, kanna hvernig best mætti haga aðgangi að fundargögnum fastanefnda, sérstaklega með tilliti til þess að hvaða gögnum yrði frjáls aðgangur, um hvaða gögn skyldi ríkja trúnaður samkvæmt reglum forsætisnefndar og hvaða gögn nefndir óskuðu eftir að væru trúnaðargögn um tíma og yrði þá ekki dreift á fundi.
Í seinna skiptið hafi verið um að ræða bréf umboðsmanns Alþingis sem birtist á fundagáttinni og greint er frá hér að ofan.
Yfirfara allt verklag
Í svarinu segir enn fremur að af tilefni framangreindu og að frumkvæði forseta Alþingis hafi þessi mál verið til sérstakrar athugunar innan skrifstofunnar og á nefndasviði. Megináherslan hafi verið á að fylgja skuli fyrirmælum reglna forsætisnefndar um meðferð trúnaðarupplýsinga. Athugunin hafi jafnframt beinst að því að yfirfara allt verklag, ekki síst eftir að þingmenn fastanefnda hófu að geta sótt fundargögn nefndar í fundagátt.