Andres Manuel Lopez Obrador verður næsti forseti Mexíkóa, samkvæmt útgönguspám. Mexíkóar gengu til kosninga í gær til að velja sér nýjan forseta, þing og sveitastjórnir. Kjósendur biðu í löngum röðum fyrir utan skóla og félagsheimili víða um landið en um 88 milljónir manns eru á kjörskrá. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.
Vinstrimaðurinn Obrador fær rúm 53 prósent atkvæða, samkvæmt síðustu útgönguspám, en íhaldsmaðurinn Ricardo Anaya 23 prósent.
Hann hét því fyrir kosningar að taka á „djöfullegri“ spillingu og samkvæmt BBC segir hann að hún hafi orsakað ójöfnuð og ofbeldi í landinu. Hann lofaði að tvöfalda ellilífeyri og að sækjast eftir vinsamlegu sambandi við nágrannaríkið, Bandaríkin.
Í frétt RÚV kemur fram að tveir flokkar hafi verið við völd í Mexíkó í næstum hundrað ár en í dag sé útlit fyrir að svo verði ekki lengur. Andres Manuel Lopez Obrador, sem er oft einfaldlega kallaður Amló eftir skammstöfun sinni, sé fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar og frambjóðandi vinstri manna.
„Obrador er ýmist lýst sem vinstrimanni, popúlista eða þjóðernissinna, segir í umfjöllun Reuters. Andstæðingar hans hafa líkt honum við Hugo Chavez og sagt að hann sé einfari sem ekki beri að treysta með efnahag landsins. Kjósendur virðast hins vegar ekki hafa tekið mark á þeim skilaboðum. Mikillar reiði gætir í garð Enrique Pena Nieto, sitjandi forseta, sem og efnahagsástands landsins, víðtækrar spillingar og glæpa, segir skýrandi breska ríkisútvarpsins. Obrador hefur sagt að flokkur Nietos, PRI, og hinn flokkurinn sem verið hefur verið við völd, PAN, séu ein og sama valdamafían. Hann teflir fram vinstrisamsteypu í forystu eigin flokks, Morena,“ segir í frétt RÚV.