Síðasti áfangi hækkunar á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði launafólks á almennum vinnumarkaði kom til framkvæmda þann 1. júlí síðastliðinn en þá hækkaði framlagið um 1,5 prósent og er nú orðið 11,5 prósent.
Þetta kemur fram í frétt ASÍ.
Skylduiðgjald til lífeyrissjóðs nemur því nú samtals 15,5 prósent sem skiptist í 4 prósent iðgjald launamanns og 11,5 prósent mótframlag atvinnurekenda, segir í fréttinni. Atvinnurekandi greiðir hækkað mótframlag til þess lífeyrissjóðs sem skylduiðgjaldið er greitt til en sjóðfélagar geta nú sjálfir ráðstafað allt að 3,5 prósent af lífeyrisiðgjaldi sínu í tilgreindan séreignarsparnað með samningi við lífeyrissjóð eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu.
Hækkun mótframlags atvinnurekenda byggir á kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ og SA frá janúar 2016 en þá var samið um 3,5 prósent hækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð sem tók gildi í þremur áföngum á árunum 2016 til 2018.