Danske bank er ásakaður um að hafa stundað peningaþvætti fyrir u.þ.b. 890 milljarða íslenskra króna í gegnum útibúið sitt í Eistlandi. Þetta kom fram í frétt Berlingske í gær, en Bloomberg fjallar einnig um málið.
Ásökunin, sem tengist hinu svokallaða Magnitskij-máli, snýr að starfsemi útibús Danske bank í Eistlandi. Útibúið átti að hafa tekið á móti stórum fjárhæðum frá erlendum viðskiptavinum, mörgum hverjum frá löndum sem hafa veikar varnir gegn peningaþvætti, líkt og Rússlandi, Moldóvu og Azerbaijan.
Bankinn bauð upp á þjónustu til erlendra viðskiptavina allt til ársins 2015, en byrjaði að draga úr starfseminni tveimur árum fyrr eftir að grunsemdir vöknuðu í kjölfar skýrslu frá innanbúðarmönnum árið 2013. Stuttu seinna hóf bankinn eigin rannsókn á málinu. Eftir töluverða fjölmiðlaumfjöllun um málið jók bankinn umfang rannsóknarinnar síðastliðinn september og skoðaði færslur viðskiptavina frá árinu 2007.
Rannsókn, uppsögn og afsökunarbeiðni
Mánuði seinna hófst formleg rannsókn franskra yfirvalda á Danske bank, sem lauk síðastliðinn janúar. Í apríl sagði svo Lars Mørch, rekstrarstjóri alþjóðaviðskipta bankans frá 2012, af sér og mánuði seinna baðst framkvæmdastjórinn Thomas Borgen opinberlega afsökunar á starfseminni.
Á svipuðum tíma gerði fjármálaeftirlit Danmerkur einnig athugasemdir við svifaseinum aðgerðum Danske bank vegna óeðlilega mikils gróða frá erlendum viðskiptavinum, en eftirlitið gaf átta tilmæli sem bankinn átti að framfylgja. Þó sagði Jesper Berg, forstjóri fjármálaeftirlitsins, að ekki væru næg sönnunargögn til staðar til þess að hefja formlega rannsókn.
Í gærkvöldi birti svo Berlingske frétt þar sem upphæð peningaþvættisins er sögð hafa numið um 53 milljarða danskra króna, sem jafngildir u.þ.b. 890 milljörðum íslenskra króna. Þetta er tvöföld upphæð frá því sem áður var talið. Fréttin virðist hafa veikt traust hluthafa í garð Danske bank, en hlutabréfaverð bankans féll í gær um 3% eftir birtingu hennar.