Þingmenn ríkisstjórnar Póllands hrundu af stað lagabreytingum um miðnætti í gær sem leiðir til uppsagnar 27 af 72 hæstaréttardómurum landsins. Lagabreytingunum var mætt með mótmælum í meira en 60 bæjum um allt landið í gærkvöldi og í dag hafnaði einn fráfarandi dómaranna ákvörðuninni með því að mæta í hæstarétt. Frá þessu er greint á Reuters og New York Times.
Í fréttunum er greint frá lagabreytingum ríkisstjórnarinnar, en litið er á þær sem liður í herferð stjórnarflokksins Laga-og réttlætis (PiS), gegn sjálfstæði dómskerfisins þar í landi. Eftir að hafa komist til valda árið 2015 tók flokkurinn yfir stjórnarskrárdómstól landsins og fól dómsmálaráðherra vald yfir saksóknurum landsins. Nýlega hefur PiS svo gefið sér vald til að velja nýja dómara og lækkuðu svo eftirlaunaaldur þeirra niður í 65 ára.
Lækkun eftirlaunaaldursins, sem tók gildi um miðnætti í gær, leiddi til þess að 27 af 72 hæstarréttardómurum Póllands voru neyddir til að segja af sér. Dómararnir geta þó fengið undanþágu frá lögunum frá Andrzej Duda, forseta landsins, sem er hliðhollur PiS.
Reuters greindi svo frá því að einn umræddra dómara, Malgorzata Gersdorf, mætti til vinnu í hæstarétt í dag og hafnaði þar með nýju lagasetningunni. Gersdorf, sem hefur verið forseti hæstaréttsins síðan 2014, segir lagasetninguna brjóta í bága við ákvæði stjórnarskrár Póllands og geti því ekki tekið gildi.
Samkvæmt frétt Reuters hefur lagasetningin einangrað Pólland innan ESB. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ákærði pólsku ríkisstjórnina vegna breytinganna síðastliðinn mánudag, en í ákærunni eru þær sagðar draga úr sjálfstæði dómstóla þar í landi.