Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi blaðamaður, svarar á Facebook síðu sinni gagnrýni Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og kollega hans í ríkisstjórnarflokkunum, á fjölmiðla. Brynjar sagði í gær að íslenskir fjölmiðlar séu veikasti hlekkurinn í íslensku samfélagi, stundi meiri pólitík en stjórnmálamenn og eigi heima í ruslflokki. Kolbeinn nefnir Brynjar ekki beint eða skrif hans, en hugleiðingum Kolbeins er augljóslega beint að gagnrýni Brynjars frá því gær.
Kolbeinn rifjar upp störf sín í blaðamennsku, þar sem hann segist hafa mátt sitja undri alls kyns uppnefnum, frá eigendum, þingmönnum og ráðherrum meðal annarra.
„Þegar ég ræddi þetta við fólk, tilgreindi mig og ýmsa félaga á ritstjórninni – ertu að tala um mig, þennan, þessa? – þá fjaraði þetta gjarnan út. Fyrir mörgum varð ritstjórnin nefnilega einhvers konar lífræn heild sem hægt var að finna allt til foráttu, en þegar bent var á að hún væri samsafn einstaklinga fannst mér oft lítið verða úr þessu. Því eitt er að gagnrýna mig sem blaðamann, annað að heimfæra það á heila ritstjórn, hvað þá fjölmiðla í heild,“ segir Kolbeinn.
Hann segist ekki hafa verið óskeikull blaðamaður, gert mistök eða villur sem hann hafi þá leiðrétt. En sú gagnrýni sem hann vísi til hafi ekki snúist um staðreyndarvillur eða mistök. Fólki hafi mislíkað að hann hefði skrifað um eitthvað eða hvernig hann gerði það, án þess að hægt væri að benda á villur.
„Nú er ég þingmaður. Oft sé ég eitthvað í fjölmiðlum sem ég er ósammála og stundum misferst eitthvað í fréttum. Það er eðlilegt. Að taka það sem eitthvað dæmi um ástand fjölmiðla almennt er ekki bara galið, það er beinlínis hættulegt. Þetta höfum við séð æ oftar undanfarin ár, því miður. Heilu fjölmiðlarnir eru sagðir svona eða hinsegin, grafið er undan trúverðugleika þeirra, og svo fjölmiðlar í heild sinni talaðir niður,“ skrifar Kolbeinn og bætir við: „Þingmenn bera mikla ábyrgð og ættu að mínu mati að huga oftar að þeirri ábyrgð. Við erum hluti af því kerfi lýðræðis sem ríkir á Íslandi og það eru fjölmiðlar líka. Þess vegna verða þingmenn að gæta sérstaklega að orðum sínum þegar að fjölmiðlum kemur. (Raunar finnst mér að við mættum öll gæta oftar að orðum okkar.) Fjölmiðlar eru ekki hafnir yfir gagnrýni, en sú gagnrýni skal þá vera rökstudd með dæmum – ekki sleggjudómar. Því með þeim er sleggjan reidd til höggs að lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla, sem er einmitt að veita okkur þingmönnum og stjórnvöldum aðhald.“
Ég vann lengi á fjölmiðlum og lengst á Fréttablaðinu. Sem blaðamaður þar mátti ég sitja undir alls kyns uppnefnum um mig...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Wednesday, July 4, 2018