„Þetta byggingarmagn er mun meira en upphaflega var gert ráð fyrir þegar borgin keypti landið af ríkinu. Heildstæð umferðargreining fyrir svæðið liggur ekki fyrir og engar nýjar lausnir til að létta umferðina,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um nýja tillögu að rammaskipulagi fyrir 1.200 íbúða byggð hjá Reykjavíkurflugvelli, sem samþykkt hefur verið af Borgarráði.
Kjarninn greindi frá samþykktinni í gær, en þar er einnig gert ráð fyrir nýjum skóla, verslun og þjónustu. Tillagan var samþykkt í Borgarráði með fjórum atkvæðum meirihlutaflokkanna í Reykjavík, Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun á fundinum þar sem fram kemur að þau telji uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í vesturhluta borgarinnar mjög mikilvæga til að ná jafnvægi í skipulagi og á húsnæðismarkaði og gæta þess að hverfi séu sem mest sjálfbær. „Það skýtur skökku við að gagnrýna uppbyggingu í Örfirisey á grundvelli umferðamála en leggja hér fram tillögu um allt að 3.000 manna byggð án heildstæðs umferðarmats. Ekki liggur fyrir heildstæð umferðargreining á svæðinu né heldur höfuðborgarsvæðinu í heild. Um er að ræða þreföldun á hverfinu og því nauðsynlegt að greina áhrif þess,“ segir í bókun sjálfstæðismanna.
Rammaskipulagið lýtur að byggð í Nýja Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs en af öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar til norðurs og austurs. Við suðurenda byggðarinnar er síðan strandlengja Skerjafjarðar.
Rammaskipulaginu er ætlað að vera leiðarljós varðandi uppbyggingu byggðar á þróunarreit 5 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en sá reitur nær yfir allan Reykjavíkurflugvöll. Þannig verði hugsað fyrir tengingu hverfisins við áframhaldandi uppbyggingu í Vatnsmýri þegar flugvöllurinn víkur þaðan.
Í tillögunni er einnig gert ráð fyrir tengingu almenningssamgangna við Kársnes í Kópavogi með byggingu brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.