Samkeppniseftirlitið segir ekkert athugavert við háttsemi RÚV á auglýsingamarkaði vegna HM í fótbolta. Þetta kemur fram í frummati eftirlitsins á vef sínum í dag.
Frummatið er gefið í kjölfar kvörtunar Símans hf. auk ábendinga annarra fjölmiðla vegna háttsemi Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í tengslum við Heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Í kvörtuninni er vikið að meintum lágmarkskaupsskilyrðum RÚV á tilteknum auglýsingaplássum í tengslum við sýningar HM og að vikið sé frá lögbundinni gjaldskrá við sölu af þeim.
Eftirlitið telur sig ekki hafa fullnægjandi lagaheimild til rannsóknar á málinu, en samkvæmt svari RÚV til hefur enginn áskilnaður verið gerður um lágmarkskaup og ekki verið á nokkurn hátt lagt að auglýsendum að ráðstafa fé sínu í öllu eða einhverju leyti til RÚV. Einnig miðaðist gildistími allra eftirfarandi samninga einungis við HM og lýkur því með mótinu. Engin fríðindi fylgja kaupendum auglýsingaplássins né binding, hvorki í formi einkakaupa né tryggðarafslátta.
Í ljósi svars Ríkisútvarpsins telur Samkeppniseftirlitið ekki vera nægar vísbendingar um að RÚV hafi með háttsemi sinni gengið gegn samkeppnislögum, þótt fyrirtækið yrði talið vera markaðsráðandi á auglýsingamarkaði. Því sé ekki tilefni til frekari athugunar á grundvelli heimildar eftirlitsins til íhlutunar gegn athöfnum opinberra aðila.
Vísar eftirlitið m.a. til þess að fjölmiðlanefnd hefur eftirlit með því að RÚV fari að fjölmiðlalögum, en nefndin hefur þetta mál nú til skoðunar.
Þrátt fyrir engar athugasemdir við þetta athæfi tekur Samkeppniseftirlitið þó fram að það hafi ítrekað fjallað um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði og lagt til að hún verði endurskoðuð. Eðlilegt sé að ráðuneyti og stjórnvöld sem fara með málefni RÚV taki stöðu miðilsins til skoðunar sem og þær reglur sem settar hafa verið fram til að bæta úr henni.