Meira en 600 norskir starfsmenn á olíuborpöllum eru komnir í verkfall, en búist er við verðhækkunum á heimsmarkaðsverði á olíu í kjölfarið. Þetta kemur fram í frétt Dagens Næringsliv í gærkvöldi.
Ljóst var í gær að samningar myndu ekki nást milli Sambands norskra skipaeigenda (e. Rederiforbundet) og Verkalýðsfélags orkugeirans í Noregi (e. SAFE) og munu því yfir 600 starfsmenn olíuborpalla hefja verkfall. Náist samningar ekki fyrir næstkomandi sunnudag munu 900 meðlimir verkalýðsfélagsins einnig leggja niður störf. Vegna verkfallsógnar upplýsti Shell svo í gær að starfsemi á Knarr-svæðinu yrði stöðvuð.
Í umfjöllun Dagens Næringsliv er haft eftir Commerzbank að þrátt fyrir að lítill hluti olíuframleiðslu á heimsvísu muni laskast vegna verkfallsaðgerðanna gætu þær haft áhrif á olíuverð þar sem markaðurinn sé nú þegar í þröngri stöðu. Í frétt Financial Times um málið er verkfallinu lýst sem dæmi um hve viðkvæmur hrávörumarkaðurinn er gagnvart litlum röskunum.
Olíuverð hefur farið nokkuð hækkandi undanfarin misseri, en samkvæmt ráðgjafa Dagens Næringsliv eru þær aðallega vegna framboðsminnkunar í Líbíu auk viðskiptabanns Bandaríkjanna við Íran. Norski hlutabréfamarkaðurinn hefur notið góðs af þessum hækkunum, en vísitala hans hækkaði um 1,18 prósent í kjölfar olíuverðhækkananna í gær.