Vátryggingafélag Íslands gerði grein fyrir í dag að afkoma félagsins á öðrum ársfjórðungi sé um 1,1 milljarði lægri en afkomuspá hafði gert ráð fyrir. Þetta kom fram í tilkynningu félagsins sem birtist á vef Kauphallarinnar þann 20. júní auk annarar tilkynningarinnar á vef Kauphallarinnar fyrr í dag.
Í tilkynningu VÍS þann 20. júní var reiknað með að hagnaður félagsins yrði 92 milljónir króna fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi, í stað 792 milljóna króna sem áður var spáð. Ástæða lækkunarinnar voru tvö brunatjón sem áttu sér stað á tímabilinu, annars vegar í Perlunni og hins vegar í Miðhrauni.
Samkvæmt VÍS er afar óvenjulegt að tvö tjón af slíkri stærðargráðu eigi sér stað á sama ársfjórðungi. Bæði tjónin séu af umfangi sem ekki hefur sést hjá VÍS síðan í óveðrinu í mars 2015 og brunanum í Skeifunni sumarið 2014.
Í tilkynningu Kauphallarinnar fyrr í dag var svo gert ráð fyrir frekari lækkun afkomu um aðrar 392 milljónir íslenskra króna, en samkvæmt félaginu er aðalástæða þeirrar lækkunar óhagstæð þróun á verðbréfamörkuðum síðustu daga í júní. Því skilaði vátryggingafélagið 300 milljóna tapi á öðrum ársfjórðungi.
Afkomuviðvörun VÍS kemur tveimur dögum eftir viðvörun annars stórs félags í Kauphöllinni, en Kjarninn greindi frá lækkun afkomuspár Icelandair um nær 30% á sunnudaginn. Í kjölfarið lækkaði verð á hlutabréfum flugfélagsins um fjórðung.