Tölvurisinn Google var sektaður um 4,34 milljarða evra af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í dag vegna brota á samkeppnislögum. Sektin jafngildir 540 milljörðum íslenskra króna, en hún er sú stærsta sem sambandið hefur gefið nokkru fyrirtæki.
Í úrskurði Evrópusambandsinsgegn tölvufyrirtækinu segir að þær skorður sem Google hafi sett Android-símum til að auka umferð um eigin leitarvél hafi verið gegn samkeppnislögum sambandsins. Með þessu segir Evrópusambandið Google hafa notað Android sem tól til að styrkja markaðsráðandi stöðu tölvufyrirtækisins.
Takmarkanir Google á hendur Android-síma voru þríþættar:
- Í fyrsta lagi krafði tölvufyrirtækið framleiðendur að setja upp leitarvél sína og netvafra sem skilyrði þess að komast að smáforritum Google í gegnum Google Play Store.
- Í öðru lagi borgaði Google framleiðendum og eigendur farsímaneta með því skilyrði að þeir settu upp leitarforrit fyrirtækisins á tækjum sínum.
- Í þriðja lagi hindraði fyrirtækið framleiðendum sem vildu setja upp smáforrit á þeirra vegum að selja farsíma sem gekk á Android-hugbúnaðarútgáfum sem væru ósamþykktar af Google.
Vegna þeirra aðgerða var Google sektað til að greiða 4,34 milljarða evra vegna brota á samkeppnislögum Evrópusambandsins. Samkvæmt frétt BBC um málið munu heildarskuldir Google til Evrópusambandsins nú nema 6,7 milljörðum evra, en fyrirtækið var dæmt til að borga 2,24 miljarða í fyrra þar sem fyrirtækið hygldi eigin netverslun á leitarvél sinni.
Langhæsta sektin á eitt fyrirtæki
Sektin á hendur Google er sú stærsta sem Evrópusambandið hefur gefið í nokkru máli og sú langhæsta sem sambandið hefur gefið einu fyrirtæki. Næst stærsta sekt sambandsis var gefin út vegna samráðs vörubílstjóra í fyrra og nam um 3,8 milljörðum, en hún dreifðist á þrjú fyrirtæki. Í þriðja sæti situr svo fyrri sektin til Google, en í því fjórða er hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft sem var dæmt til að greiða alls 1,46 milljarða evra vegna ólöglegrar samtvinnunar hugbúnaðar síns og netvafrans Explorer.
Samkvæmt BBC hefur tölvufyrirtækið sagst munu áfrýja dómnum, en Google er nú þegar í miðju áfrýjunarferli vegna fyrri dóms fyrirtækisins.