Íbúðaverð hækkaði um 0,8% milli maí og júní á meðan leiguverð lækkaði um 2,4%. Leiguverð stúdíóíbúða lækkaði umfram aðrar íbúðaflokka, en fasteignaverð sérbýlis og nýrra íbúða hefur hækkað töluvert umfram fasteignaverð fjölbýlis undanfarna mánuði. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands greiningar frá Arion banka.
Sérbýli hækkar hraðar
Samkvæmt tölunum, sem birtar voru í gær og í dag, var hækkun íbúðaverðs mest í sérbýli milli mánaða, eða um 1,7%, á meðan verð á fjölbýli hækkaði einungis um 0,6%. Sé litið á þróun síðustu tólf mánaða er munur á verðhækkun tveggja flokkanna enn meiri, en fasteignaverð sérbýlis hefur hækkað um 9,3% frá júní í fyrra, til samanburðar við 3,7% hækkun á verði í fjölbýli.
Hækkun á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var á milli þessara tveggja flokka, en hún nam 0,8% milli maí og júní og 5,2% milli júnímánaða 2017 og 2018.
Meiri sveiflur í leiguverði
Á hinn bóginn lækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,4% milli maí og júní. Af tölum Þjóðskrár er leiguverðið hins vegar bundið meiri sveiflum en íbúðaverðið, síðastliðna 12 mánuði hefur það hækkað hraðar en íbúðaverð, eða um 7%. Sveiflurnar eru enn greinilegri þegar leiguverð er skipt niður eftir flokkum og hverfum, en leiguverð studíóíbúða lækkaði um 25% milli maí og júní í Vesturhluta Reykjavíkur og 13% í Austurhluta bæjarins. Á sama tíma hækkaði leiguverð tveggja herbergja íbúða í Vesturhlutanum um 4%, en lækkaði um 8% í Austurhlutanum.
Nýrri byggingar hækka hraðar
Greiningadeild Arion banka bendir á að ásett verð í fasteignaauglýsingum hefur þróast mismunandi eftir íbúðaflokkum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum, en nýrri eignir virðast hafa hækkað mun hraðar í verði.
Undanfarna tólf mánuði nam hækkun ásetts verðs í nýrri byggingum um 17,5%, á sama tíma og auglýst verð í eldri byggingum hækkaði einungis um 2,3%. Til samanburðar þá hefur fermetraverð í fjölbýli samkvæmt vísitölu íbúðaverðs fyrir höfuðborgarsvæðið hækkað um 2,9% undanfarna tólf mánuði.
Munurinn er enn meiri ef munur á verðþróun milli nýrra og gamalla bygginga er einungis skoðaður frá áramótunum. Á því tímabili hefur auglýst verð nýrra bygginga hækkað um 7,7% á meðan ásett verð eldri bygginga hefur lækkað um 1,0%. Til samanburðar hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 2,4% á tímabilinu.