Hlutabréf álfyrirtækisins Alcoa féllu í verði eftir að hafa lækkað árlegu afkomuspá sína um 14% í gær. Í tilkynningu fyrirtækisins nefnir það sérstaklega bandaríska innflutningstolla á áli og framboðsskort á Vesturlöndum.
Vænt tap á áli og súráli
Alcoa birti í gær rekstrarniðurstöður sínar úr öðrum ársfjórðungi þar sem félagið náði að skila 75 milljón Bandaríkjadala hagnaði, eða um 0,39 dala hagnaði á hlut. Í meðfylgjandi tilkynningu breytti fyrirtækið einnig rekstrarspá fyrir 2018, en vænt afkoma Alcoa fyrir skatta og fjármagnskostnað (EBITDA) var lækkuð úr 3,5-3,7 milljörðum Bandaríkjadala niður í 3,0-3,2 milljarða dala. Einnig er búist við tapi á framleiðslu áls og súráls, en hagnaði í báxítframleiðslu.
Óttast frekari tolla
Í tilkynningu félagsins var sérstaklega vikið að nýtilkomnum tollum Bandaríkjanna á áli, en Donald Trump Bandaríkjaforseti innleiddi 10% tolla á álinnflutning frá Kanada, Evrópusambandið og Mexíkó fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan. Í kjölfarið setti Evrópusambandið og Kína á tolla á ýmsar útflutningsvörur Bandaríkjanna og samkvæmt frétt CNBC er óttast að frekari tollalagning muni eiga sér stað á næstunni. Samkvæmt Alcoa munu tollarnir kosta fyrirtækið 15 milljónir Bandaríkjadala.
Tilkynningin kom út rúmlega fjögur um síðdegið á austurströnd Bandaríkjanna, en samkvæmt frétt Reuters lækkaði hlutabréfaverð um fjögur prósent eftir lokun markaða í gær.
544 starfsmenn á Íslandi
Alcoa rekur stærsta álver Íslands, en það er staðsett á Reyðarfirði og hefur verið starfrækt frá árinu 2007. Útflutningsverðmæti álversins á árinu 2017 voru um 81 milljarður króna, en það jafngildir um 10% prósentum af vergri landsframleiðslu. Starfsmenn álversins í fyrra voru um 544.