Leiðandi hagvísir Analytica fyrir íslenska efnahagskerfið lækkaði í síðasta mánuði og gefur til kynna að samdráttur gæti verið á næsta leiti. Þetta kemur fram í tilkynningu Analytica sem birtist fyrr í dag.
Hagvísirinn, sem byggir á sex undirþáttum efnahagslífsins, hefur verið birtur frá í apríl 2013 af ráðgjafafyrirtækinu Analytica. Samkvæmt Yngva Harðarsyni, framkvæmdastjóra Analytica er hlutverk vísitölunnar að vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsmálum með því að gefa vísbendingu um stöðu hagkerfisins að sex mánuðum liðnum.
Vísirinn er reiknaður á grundvelli sömu aðferðarfræði og aðrar sambærilegar leiðandi vísitölur, sér í lagi leiðandi vísitölu OECD. Hann byggir á sex undirþáttum sem hver um sig leiðir almenn efnahagsumsvif í tíma á afmörkuðu sviði hagkerfisins. Þeir eru eftirfarandi:
- Væntingavísitala Gallup
- Vöruinnflutningur
- Vísitala aflaverðmæta
- Heimsvísitala hlutabréfa
- Debetkortavelta
- Komur ferðamanna Íslands í gegnum Leifsstöð
Allar vísitölur og fjárhæðir eru á föstu verðlagi auk þess sem þær eru leiðréttar með tilliti til árstíðasveiflna.
Samkvæmt tilkynningu Analytica lækkuðu allir undirþættir vísitölunnar sem sneru að Íslandi milli júní og maí, en heimsvísitala hlutabréfa var eini þátturinn sem hækkaði. Stærstu áhættuþættir í líkaninu eru vegna ytri aðstæðna, en tilkynningin nefnir þar sérstaklega þróunina í alþjóðastjórnmálum.
Vísitalan hefur farið lækkandi milli mánaða nú fimmta mánuðinn í röð og er það stærsta samfellda lækkun vísitölunnar frá fjármálahruninu árið 2008. Miklu munar þó á sveiflunum tveimur, en vísitalan lækkaði um 13% í hruninu, til samanburðar við tveggja prósentu lækkun hennar í ár.