Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, harmar að heimsókn danska þingforsetans Piu Kjærsgaard hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarfundinum á Þingvöllum í gær. Þetta kemur fram í nýbirtri fréttatilkynningu Steingríms í dag.
Í tilkynningunni segir Steingrímur að hann hafi undirbúið þingfundinn á Þingvöllum og rætt hann jöfnum öndum við forsætisnefnd og formenn þingflokkanna. Sjálfsagt hafi þótt frá byrjun í ljósi tilefnisins að Pia Kjærsgaard yrði í sérstöku hlutverki á þessum hátíðarfundi sem forseti danska þingsins. Henni væri því boðið til landsins sem fulltrúa gagnaðila að fullveldissamningnum.
Þar að auki segist Steingrímur harma að heimsókn Piu hafi verið notuð „til að varpa skugga á hátíðarhöldin“ og leyfir sér að trúa því að meint óvirðing í garð heimsókn hennar sé minnihlutarsjónarmið.
Kjarninn fjallaði í gær um heimsókn Piu Kjærsgaard í tilefni hátíðarfundar Alþingis í gær vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Pia er einn stofnenda Danska þjóðarflokksins og leiddi flokkinn á árunum 1995 til 2012. Hún er einn þekktasti stjórnmálamaður í Danmörku í dag og hefur talað hart gegn fjölmenningu, innflytjendum og íslam.
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um komu Piu síðastliðinn þriðjudag tilkynnti þingflokkur Pírata í gær að hann myndi sniðganga þingfundinn, en flokkurinn sagði enga nauðsyn fyrir komu hennar þar sem engin hefð sé fyrir því að erlendir gestir ávarpi þingfundi af þessu tagi. Píratar sögðu ákvörðunina einnig óforsvaranlega þar sem Pia væri einn helsti höfundur og talsmaður útlendingaandúðar í Evrópu.