Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar krefst þess að Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis leiðrétti ummæli sín um viðbrögð við hlutverki Piu Kjærsgaard á aldarafmæli fullveldisins. Þetta segir Helga í nýrri stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni.
Kjarninn hefur fjallað um heimsókn danska þingforsetans Piu Kjærsgaard í tilefni hátíðarfundar Alþingis í gær vegna 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Pia er einn stofnenda Danska þjóðarflokksins og leiddi flokkinn á árunum 1995 til 2012. Hún er einn þekktasti stjórnmálamaður í Danmörku í dag og hefur talað hart gegn fjölmenningu, innflytjendum og íslam.
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um komu Piu síðastliðinn þriðjudag tilkynnti þingflokkur Pírata að hann myndi sniðganga þingfundinn, en flokkurinn sagði enga nauðsyn fyrir komu hennar þar sem engin hefð sé fyrir því að erlendir gestir ávarpi þingfundi af þessu tagi. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gekk einnig út af hátíðarfundinum á meðan Pia flutti ávarp sitt.
Í gær birti svo Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fréttatilkynningu þar sem hann segist harma að heimsókn danska þingforsetans hafi verið notuð til að varpa skugga á hátíðarfundinum, en hann leyfi sér að trúa því að meint óvirðing í garð heimsókn hennar sé minnihlutarsjónarmið.
Að gefnu tilefni. Mér þykir miður að forseti Alþingis, Steingrímur J Sigfússon, kjósi að hafa rangt við í...
Posted by Helga Vala Helgadóttir on Friday, July 20, 2018
Í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag, sem lesa má hér að ofan, segir Helga Vala Steingrím fara með rangt mál í fréttatilkynningu sinni í gær sem og í sérstöku sendibréfi sínu til Piu,þar sem forsetinn biður hana formlega afsökunar. Steingrími sé ljóst að mótmæli Helgu sneru ekki að Piu sem fulltrúa danskrar þjóðar heldur hennar framgöngu og hatursorðræðu gagnvart útlendingum og flóttamönnum.
Enn fremur segir Helga að Steingrímur hafi með rangfærslum sínum kosið að stilla upp þeirri sviðsmynd að þau sem mótmæli hatursorðræðu og standi með mannréttindum allra séu með því að kasta rýrð á danska þjóð. Hún segir að svo sé ekki og krefst jafnframt að Steingrímur leiðrétti ummæli sín án tafar.