Ljósmæðrafélag Íslands samþykkti í dag að aflýsa yfirstandandi yfirvinnubanni í kjölfar miðlunartillögu sem lögð var fram af Ríkissáttarsemjara. Ljósmæðrafélagið mun kjósa um tillöguna frá mánudegi til miðvikudags, en niðurstaða ætti að liggja fyrir klukkan tvö á miðvikudegi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Ríkissáttarsemjara og samkvæmt heimildum Kjarnans.
Tillagan felur í grundvallaratriðum í sér sambærilegar hækkanir og samningur Ljósmæðrafélagsins og ríkisstjórnarinnar frá 29. maí og gildir til 31. mars 2019. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu Ríkissáttarsemjara.
Samkvæmt tilkynningunni hefur djúpstæður ágreiningur milli Ljósmæðrafélagsins og ríkisstjórnarinnar um það hvort launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra meðal annars staðið í vegi fyrir undirritun kjarasamnings. Því feli tillaga ríkissáttarsemjara í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa frekari áhrif á launasetningu stéttarinnar. Dómurinn verði skipaður af ríkissáttarsemjara og skal hann ljúka störfum eigi síðar en fyrsta september næstkomandi.
Tillagan verður kynnt félagsmönnum og fjármála-og efnahagsráðherra á næstu dögum og verður kosið um hana fyrir hádegi næstkomandi miðvikudag. Tillagan verði ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði verða greidd um hana.
Samkvæmt heimildum Kjarnans býður Ljósmæðrafélagið til fundar annað kvöld klukkan átta á Landspítalanum og í fyrramálið á Akureyri. Opnað verði fyrir atkvæðagreiðslu um hádegi á mánudaginn og stendur hún yfir til hádegis á miðvikudaginn.
Stefnt verði að því að niðurstaða talningar liggi fyrir tveimur tímum eftir að lokað verður fyrir atkvæðagreiðslu.