Um 8 þúsund færri farþegar fóru um flugvelli landsins á fyrri helmingi þessa árs, aðra en Keflavíkurflugvöll, en á sama tímabili í fyrra. Rúmlega 377 þúsund farþegar fóru um flugvelli landsins á þessum tíma. Vefsíðan Túristi.is greinir frá þessu.
Þannig fækkaði farþegum á Reykjavíkurflugvelli um nærri 5 af hundraði en minna á Egilsstöðum. Um flugstöðina á Akureyri fóru hins vegar fleiri en á sama tíma í fyrra en samkvæmt frétt Túrista verður að horfa til þess að 3.525 farþegar flugu milli Akureyrar og Bretlands fyrstu þrjá mánuði ársins í leiguflugi á vegum breskrar ferðaskrifstofur og því ekki farþegar í innanlandsflugi. „Þetta var í fyrsta skipti sem þessar ferðir voru í boði og ef ekki hefði komið til þeirra þá hefði þróunin á flugstöðinni á Akureyri verið neikvæð í ár líkt og í Reykjavík og Egilsstöðum.“
Þá hefur Air Iceland Connect frá því í ársbyrjun í fyrra boðið upp á beinar ferðir frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar. Sú þjónusta er aðeins í boði fyrir þá sem eru að koma úr eða á leið í millilandaflug og þar er því ekki um að ræða hefðbundið innanlandsflug.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er sérstakur almenningssamgöngu- og flugmálahluti. Þar stendur meðal annars: „Unnið verður að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Áfram þarf að byggja upp almenningssamgöngur um land allt.“