Verð á flugmiðum hækkaði um 23% milli júní og júlí, samanborið við 15,2% hækkun milli maí og júní. Samtals stóð vísitala neysluverðs þó nær óbreytt fyrir sama tímabil, en verðbólgan er enn yfir markmiðum Seðlabankans. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu.
Samkvæmt Hagstofu hækkaði vísitala neysluverðs um 0,04% milli mánaða í júlí, en með því mælist verðbólga síðustu tólf mánaða þá 2,7%. Án húsnæðis mælist verðbólgan þó helmingi minni, eða um 1,4%.
Helstu breytingar sem áttu sér stað milli júní og júlí voru í fötum og skóm, flugfargjöldum og í húsaleigu. Þar lækkaði verð á fötum og skóm um 11,3%, líklega vegna sumarútsalna, en hún útskýrir tæpan helming af breytingu vísitölunnar milli mánaða. Hækkun flugfargjalda um 23% milli sumarmánaðanna útskýrir svo tæpan þriðjung breytingarinnar og 1% hækkun leiguverðsvísitölu útskýrir rúman fimmtung.
Þriðja skiptið á fjórum árum
Flugfargjöld og húsnæðisverð reyndust einnig vera helstu þættir hækkunar á vísitölu neysluverðs í síðasta mánuði, en óvænt verðhækkun flugmiða um 15,2% í júní var nær þrefalt hærri en búist var við. Sömuleiðis átti hækkun fasteignaverðs milli mánaða mikil áhrif, en það hafði staðið í stað og lækkað nokkuð mánuðina á undan. Greiningadeildir Arion banka og Landsbankans nefndu einnig ytri þætti sem stuðluðu að verðhækkunum, líkt og hærra heimsmarkaðsverði á olíu auk dýrari innfluntingsvara.
Tólf mánaða verðbólga hefur nú mælst yfir 2,5% verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í þrjá mánuði á þessu ári, en í júní og mars síðastliðnum mældist hún 2,8%. Þessar hækkanir eru þær fyrstu sem farið hafa yfir verðbólgumarkmiðið í rúm fjögur ár, eða alveg síðan í janúar árið 2014.