Prentmiðlar fengu mest auglýsingafé allra fjölmiðla á Íslandi í fyrra, samkvæmt ráðstöfun fimm stærstu birtingarhúsa landsins. Hlutdeild prentmiðlanna hefur þó minnkað samhliða auknu vægi innlendra vefmiðla, en í Evrópu eru vefmiðlar orðnir verðmætari auglýsendum en prentmiðlar. Þetta kemur fram í nýjum tölum Fjölmiðlanefndar.
Tölurnar sem um ræðir eru unnar úr ráðstöfun birtingafjár frá fimm stærstu birtingarhúsum Íslands: ABS fjölmiðlahúsi, Birtingarhúsinu, MediaCom, H:N Markaðssamskiptum, og Ratsjá Media, sem Pipar-TBWA fellur einnig undir. Þetta er í fjórða skiptingi sem nefndin birtir samantekt um skiptingu birtingafjár, sem er sú fjárhæð sem fyrirtæki verja til auglýsinga í fjölmiðlum.
Samkvæmt samantektinni ráðstöfuðu birtingarhúsin fimm á Íslandi auglýsingafé fyrir um 5,416 milljarða króna. Sú upphæð er nokkru lægri en sú sem birtingarhúsin vörðu í auglýsingar árið 2016, en það ár nam samanlagt birtingafé um 5,512 milljörðum króna.
Prentmiðlar halda velli
Enn er hlutdeild prentmiðla stærst af birtingafé allra fjölmiðla á Íslandi, en þeir ná 28% af öllum keyptum auglýsingum. Fjölmiðlanefnd telur þessa tölu einnig vera vanmat, þar sem auglýsingar og kynningar séu í mörgum tilfellum keyptar milliliðalaust af prentmiðlunum sjálfum. Næst á eftir þeim koma svo sjónvarpsstöðvar með 25,1 % og útvarpsstöðvar með 18,6%. Innlendir vefmiðlar eru hins vegar minnsti flokkur innlendra fjölmiðla, en 17,9% allra auglýsinga renna til þeirra.
Ef litið er á þróunina má þó sjá að innlendir vefmiðlar hafa aukið hlutdeild sína mest af áðurnefndum flokkum, en árið 2014 fengu þeir aðeins 12,4% af birtingafé fyrirtækjanna fimm. Sömuleiðis hefur hlutdeild prentmiðla farið minnkandi, en hún nam 37% árið 2014 og hefur farið stöðugt lækkandi síðan.
Ef auglýsingar á vefmiðlum eru skoðaðar sérstaklega sést að hlutfallsleg skipting milli innlendra og erlendra vefmiðla breyttist lítillega frá fyrri árum, iðulega fá erlendir miðlar rúman fimmtung af öllu birtingafé vefmiðla.
Annað umhverfi í Evrópu
Í kynningu Fjölmiðlanefndar segir einnig að staða auglýsingasölu til fjölmiðla sé nokkuð frábrugðin hérlendis en annars staðar í Evrópu. Þar séu vefmiðlar stærsti auglýsingaseljandinn á fjölmiðlamarkaðnum, en hlutdeild þeirra jókst fyrst fram yfir prentmiðla árið 2016.