Viðhorf Íslendinga hafa orðið jákvæðari í garð innflytjenda og fjölmenningar, en þau eru nú þau frjálslyndustu í Evrópu. Einnig vill meirihluti landsmanna að ríkisstjórnin sé rausnarleg í veitingu dvalarleyfis hælisleitenda. Þetta eru niðurstöður nýjustu útgáfu viðhorfskönnunarinnar European Social Survey.
Könnunin náði til 23 landa og 44.387 virkra viðmælenda, en 880 Íslendingar svöruðu henni. Hún hefur verið framkvæmt í átta skipti, en tilgangur hennar er að bera saman viðhorf milli Evrópulanda og hvort þau breytast yfir tíma. Nýjasta útgáfa könnunarinnar var framkvæmd á Íslandi árið 2016 og er það í þriðja skiptið sem landið tekur þátt í henni. Fyrri tvö skiptin voru framkvæmd hér á landi árin 2004 og 2012.
Ísland, Írland og Svíþjóð efst
Meðal þess sem spurt var um í könnuninni var hvort viðmælendur teldu innflytjendur hafa góð eða slæm áhrif á efnahagslífið, auk þess sem þeir eru spurðir hvort þeim fyndist innflytjendur gera landið að betri eða verri stað til að búa á. Um 69% Íslendinga töldu efnahagsleg áhrif innflytjenda góð og 78% þeirra töldu Ísland vera betra vegna komu þeirra. Bæði svarhlutföllin eru þau langhæstu af öllum Evrópulöndunum, en Írland og Svíþjóð fylgja þar á eftir með tæplega 60%.
Jákvæðir í garð fjölmenningar
Önnur spurning sneri að viðhorfi til fjölmenningar, eða nákvæmlega hvort menning heimalandsins yrði auðgað með komu innflytjenda. 78% Íslendinga svöruðu þeirri spurningu með jákvæðum hætti og var það einnig hæsta mælda hlutfall könnunarinnar. Á eftir Íslandi komu Finnland og Svíþjóð, en þar svöruðu 77% og 72% viðmælenda spurningunni með jákvæðum hætti.
Þegar litið er á niðurstöður Íslands í fyrri útgáfum könnunarinnar árið 2004 og 2012 sést að viðhorf í garð fjölmenningar hefur tekið jákvæðum breytingum á undanförnum árum. Árið 2004 svöruðu 68% Íslendinga innflytjendur bæta menningarlíf landsins, og árið 2012 var svarhlutfallið einnig í 69%.
Þau lönd sem vöru fjandsamlegust erlendum menningaráhrifum voru Austurríki, Litháen, Ungverjaland, Tékkland og Rússland, en í Rússlandi töldu einungis 17% viðmælenda innflytjendur auðga menningarlíf heimalandsins síns.
Þegar spurt var hvort ríkisstjórn heimalandsins ætti að vera rausnarleg í veitingu dvalarleyfis fyrir hælisleitendur voru 56% Íslendinga því fylgjandi, þar af voru 15% mjög fylgjandi. Þetta hlutfall er það þriðja hæsta í Evrópu, en 71% Portúgala og 59% Íra svöruðu spurningunni játandi.