Marel birti í gær uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung, en samkvæmt honum eykst hagnaður félagsins um tæp 50% miðað við í fyrra auk þess sem tilkynnt var að fyrirtækið muni kaupa þýska framleiðslufyrirtækið MAJA Maschinenfabrik. Þetta kemur fram í tilkynningu Kauphallarinnar.
Tekjur félagsins uxu milli annars ársfjórðungs 2018 og 2017 úr 272,7 milljónum evra í 291,1 milljón. Samhliða því jókst hagnaðurinn einnig töluvert, eða úr 18,6 milljónum evra í fyrra upp í 29,5 milljónir í ár. Hagnaðaraukning milli ára nam því 60%, en hagnaður á hlut á öðrum ársfjórðungi var 4,31 evrusent. Ef miðað er við núverandi gengi gjaldmiðla nam hagnaður félagsins 3,6 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu, sem samsvarar 5,3 króna hagnaði á hlut.
Kaup á MAJA
Samhliða birtingu Marels á uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung tilkynnti Árni Oddur Þórðarson, forstjóri fyrirtækisins, kaup á þýska framleiðslufyrirtækinu MAJA Maschinenfabrik. MAJA sérhæfir sig í framleiðslu á búnaði fyrir matvælavinnslu, en starfsmenn þess eru um 200 og skilar fyrirtækið um 30 milljónir evra í tekjum árlega. Árni áætlar að kaupin gangi í gegn á þessum ársfjórðungi, en þau eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda.
Samkvæmt Marel eru kaupin á þýska fyrirtækinu liður í áætlun fyrirtækisins um að auka við framboð sitt af þróuðum matvinnsluvörum og hraða fyrir markaðssókn sína með yfirtökum á fyrirtækjum. Þar sem MAJA búi yfir nýstárlegu vöruframboði og nýjum landfræðilegum markaði styrkja kaupin markaðsstöðu Marels.