Elliði Vignisson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til tólf ára hefur verið ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss. Vefsíðan Hafnarfréttir greinir frá því að þetta hafi verið samþykkt á bæjarstjórnarfundi fyrr í dag.
Alls sóttu 23 einstaklingar um stöðuna en fimm drógu umsókn sína til baka.
Elliði var sem fyrr segir bæjarstjóri í Vestmannaeyjabæ í tólf ár og hefur því mikla reynslu á sviði sveitarstjórnarmála og rekstri sveitarfélaga.
Elliði bauð sig fram á lista sjálfstæðismanna í sveitarstjórnarkosningum í vor og skipaði þar fimmta sæti á lista. Hann hafði áður verið í oddvitasætinu.
Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum tapaði hreinum meirihluta sínum í kosningunum og komst Elliði ekki inn í bæjarstjórn. Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, náði þremur mönnum inn, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn auk þess sem Eyjalistinn náði einum manni inn. Fyrir Heimaey og Eyjalistinn mynduðu saman meirihluta.