Sameiginleg yfirlýsing Donalds Trump Bandaríkjaforseta og Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um frestun á bílatollum og byrjun á samningaviðræðum kom mörgum í opna skjöldu í gær. Hlutabréfaverð í evrópskum fyrirtækjum hækkaði í kjölfar yfirlýsingarinnar, en nokkrir sérfræðingar telja þó ekki ástæðu til að fagna endalokunum alveg strax.
Bílatollum frestað
Eftir heimsókn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til Hvíta hússins í Washington í gær birtu Trump og Juncker sameiginlega yfirlýsingu með litlum fyrirvara til fjölmiðla um óvænt samstarf milli ríkjasambandanna.
Samkvæmt yfirlýsingunni, sem New York Times greindi frá, mun Evrópusambandið lækka tolla sína gagnvart Bandaríkjunum og kaupa sojabaunir og jarðgas í stórum stíl, en Bandaríkin myndu fresta fyrirhugaða tollalagningu sína á innflutta bíla. Þar að auki höfðu báðir aðilar sett saman starfshóp með það að markmiði að afleggja yfirstandandi tolla Bandaríkjanna á áli og stáli.
Kjarninn greindi frá því í gær að viðskiptafulltrúi ESB, Cecilia Malmström, sagði sambandið vera tilbúið að leggja enn frekari tolla á bandarískar útflutningsvörur, fari svo að tollar á bílainnflutningi verði hækkaðir Vestanhafs. Evrópusambandið væri hins vegar frekar til í að lægja öldur í viðskiptastríðinu við Bandaríkin og sagði Cecilia að með samvinnu gætu báðir aðilar til dæmis beint sjónum sínum að óásættanlegum viðskiptaháttum Kínverja.
Yfirlýsingin kom mörgum í opna skjöldu, en fyrir fundinn sagðist Juncker ekki búast við að heimsókn sín myndi skila miklum árangri. Hún virðist samt hafa sannfært marga alþjóðafjárfesta, en samkvæmt fréttastofu Reuters náði hlutabréfaverð evrópskra fyrirtækja fjögurra mánaða hámarki í kjölfar tilkynningarinnar, og þá sérstaklega þýskir bílaframleiðendur.
Stríðinu ekki lokið
Á hinn bóginn eru ekki allir sannfærðir um gildi yfirlýsingarinnar, en norskir sérfræðingar segja óvissu í kringum tollastríðið vera vissulega enn til staðar. Kjersti Haugland, yfirhagfræðingur DNB Markets, segirí viðtali við Dagens Næringsliv markaðsaðila verða að vera viðbúin nýju útspili öðrum hvorum megin við Atlantshafið sem aftur gæti skekkt stöðuna. Joachim Bernhardsen, hagfræðingur í Nordea, tekur í sama streng og segir Bandaríkjaforseta vera óútreiknanlegan. Hann vilji líklega lækka tollamúra beggja ríkjasambandanna, en samkvæmt Joachim er tollastríðinu þó alls ekki lokið enn. „Þetta mun hafa bæði neikvæðar og jákvæðar afleiðingar á markaðinn,“ segir hann.