Hagnaður Össurar nam tæpum 2,1 milljarði íslenskra króna á öðrum ársfjórðungi og jókst um tæpan helming frá því á sama tímabili í fyrra. Vöxturinn er tilkominn vegna aukinnar sölu í dýrum nýsköpunarfyritækjum og var sérstaklega mikill í Kína og Ástralíu. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri fyrirtækisins, sem birtist á vef dönsku kauphallarinnar í morgun.
Samhliða mikilli hagnaðaraukningu jókst hagnaðarhlutfall fyrirtækisins einnig úr 9% í 12% milli ára. Framlegðarhlutfall fyrirtækisins jókst einnig, en á nýliðnum ársfjórðungi nam það 63% af tekjum, miðað við 62% á sama tímabili í fyrra.
Handbært fé frá rekstri helst óbreytt milli annars ársfjórðungs 2017 og 2018 í 23 milljónum Bandaríkjadala, en hlutfall þess af sölu lækkaði úr 16% í 15%.
Helsta ástæða hagnaðaraukningar Össurar er aukning í sölutekjum fyrirtækisins, en þær jukust úr 145 milljónir Bandaríkjadala í 158 milljónir. Það jafngildir 9% vexti í Bandaríkjadölum. Söluaukningin er drifin áfram af dýrari nýsköpunarvörum ásamt aukinni sölu á spelkum og stuðningsvörum, sérstaklega í Kína og Ástralíu. Salan óx mest á Asíu-og Kyrrahafsmarkaðnum, eða um 19%. Í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku óx salan hins vegar um 7% og í Ameríku óx hún aðeins um 2%.
Í tilkynningunni segir Jón Sigurðsson, forstjóri fyrirtækisins, söluna hafi aukist töluvert frá fyrsta ársfjórðungi eins og við var búist. Tekjuvöxturinn hafi verið í takti við væntingar, en fyrirtækið heldur rekstrarspá sinni fyrir árið 2018 óbreyttri.