Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, skrifar um fjölmiðla á Íslandi á Facebook síðu sína þar sem hann segir stöðuna grafalvarlega.
Kolbeinn deilir grein af vef The Guardian þar sem segir að Google og Facebook séu að „kyrkja frjálsa fjölmiðla til dauða“ og að „lýðræðið tapi“. Kolbeinn segir að við höfum séð þetta gerast hér á landi. Verið sé að undirbúa einhverjar aðgerðir.
„Ég tel einboðið að skattaumhverfi fjölmiðla verði endurskoðað. Fjölmiðlar eru ekki eins og hvert annað fyrirtæki, heldur mikilvægur hlekkur í gangverki lýðræðis. Það er því allt annað en sjálfgefið að um þá eigi að gilda sömu reglur og aðra, til dæmis þegar kemur að virðisaukaskatti.“
Kolbeinn segir umræða um rekstrarumhverfi fjölmiðla alltof lengi hafa snúist annars vegar um áfengisauglýsingar og hins vegar RÚV á auglýsingamarkaði. Hið fyrra sé einfaldlega lýðheilsumál og eigi ekki að blanda inn í umræður um rekstrarumhverfi fjölmiðla.
„Hvað Rúv varðar, þá er ég ekki viss um að lausnin sé að það hverfi af auglýsingamarkaði. Ég held að það sé misskilningur að við það færist tekjurnar einfaldlega til annarra. Stór hluti teknanna verður til vegna stöðu Rúv og gæti einfaldlega horfið ef það hverfur af markaði. Mér finnst að við ættum að skoða það að þær auglýsingatekjur sem Rúv aflar fari að einhverju leyti í sjóð sem standi svo öðrum fjölmiðlum opinn. Þannig verði sérstaða ríkisfjölmiðilsins í tekjuöflun nýtt öllum fjölmiðlum til handa,“ skrifar Kolbeinn.
Hann segir hugmyndir sínar algjörlega óútfærðar, hvaða áhrif þær hefðu á starfsemi RÚV og framlög frá ríkinu en segist henda þessu fram til umræðu.
„Mér finnst kominn tími til að við finnum réttu aðgerðirnar og framkvæmum þær.“
Kolbein bætir við í lokinn að honum finnist að auki einboðið að skoða hvernig hægt sé að styrkja fjölmiðla beint, þar finnst honum í raun allt opið.
Þetta er grafalvarleg staða, sem við sjáum m.a. hér á landi. Við höfum allt of lengi rætt um rekstrarumhverfi fjölmiðla,...
Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Thursday, July 26, 2018