Donald Trump Bandaríkjaforseti og sonur hans, Donald Trump Jr., gætu verið í vondum málum ef það reynist vera þannig, að þeir hafi ekki veitt yfirvöldum réttar upplýsingar um fund með rússneskum erindrekum í Trump turninum í New York, í júní 2016.
Í umfjöllun Bloomberg segir að fyrrverandi saksóknarar, sem Bloomberg ræðir við, telji að það gæti reynst þeim dýrkeypt að hafa haldið til baka upplýsingum, eða sagt ranglega frá, atburðarásinni í kringum fyrrnefndan fund. Á honum var meðal annars rætt um að grafa upp óþægilegar upplýsingar um Hillary Clinton og að Rússar gætu verið þar í lykilhlutverki.
Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump, hefur sagt að Donald Trump hafi vitað af fundinum sem sonur hans áttu með fulltrúum Rússa. Þessu neitar Trump sjálfur og hefur þegar tjáð sig um það á Twitter.
.....I did NOT know of the meeting with my son, Don jr. Sounds to me like someone is trying to make up stories in order to get himself out of an unrelated jam (Taxi cabs maybe?). He even retained Bill and Crooked Hillary’s lawyer. Gee, I wonder if they helped him make the choice!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 27, 2018
Robert Mueller saksóknari, er sagður vera langt kominn með rannsókn sína á hendur Trump og framboði hans, og þá hvort Rússar hafi skipt sér af framgangi kosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016, þar sem Trump var kosinn forseti.
Renato Morietti, fyrrverandi saksóknari og núverandi sjálfstætt starfandi lögmaður, segir í samtali við Bloomberg að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Trump og son hans, ef það reynist vera þannig, að þeir hafi ekki veitt réttar upplýsingar. Það geti leitt til ákæru, eins og dæmin sýni.