Ríkissáttasemjari hefur skipað gerðardóm í deilu Ljósmæðrafélags Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Meðal dómara verður fyrrum ríkissáttasemjari og ljósmóðir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissáttasemjara.
Kjarninn greindi áður frá miðlunartillögu ríkissáttasemjara í ljósmæðradeilunni, sem lögð var fram og samþykkt í síðustu viku með 95,1 prósent atkvæða. Tillagan fól meðal annars í sér að sérstakur gerðardómur yrði skipaður til að kveða upp úr með það að hvaða leyti launasetning stéttarinnar sé í samræmi við menntun, álag og inntak ljósmæðrastarfsins.
Samkvæmt tilkynningunni er dómurinn skipaður þeim Magnúsi Péturssyni, fyrrum ríkissáttasemjara, sem jafnframt er formaður, Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Bára Hildur Jóhannesdóttir, deildarstjóri mönnunar og starfsumhverfisdeildar Landspítala og ljósmóðir.
Gerðardómurinn er sjálfstæður í störfum sínum, en í tilkynningunni segir að hann skuli hafa hliðsjón af kjörum og launaþróun þeirra sem sambærilegir geta talist í menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum almennri þróun kjaramála hér á landi. Dómurinn á að ljúka störfum eigi síðar en fyrsta september næstkomandi.