Níu af hverjum tíu Íslendingum á aldursbilinu 18 til 29 ára eru með aðgang að streymisveitunni Netflix á heimilum sínum. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar MMR.
Könnunin rannsakaði aðgengi landsmanna að streymisþjónustunni, en hún var framkvæmd 16. Til 22. Maí síðastliðinn og heildarfjöldi svarenda var 929. Heilt yfir sögðust 67% hafa aðgang að Netflix á heimili sínu, en það er um 8 prósentustiga aukning frá því í fyrra.
Aðgengi að Netflix fór þó minnkandi með auknum aldri, en 90% svarenda á aldrinum 18-29 ára sögðust hafa Netflix á sínu heimili samanborið við 24% þeirra sem voru 64 ára og eldri.
Stuðningsmenn Framsóknarflokksins og Miðflokksins voru síst líklegir til að vera með streymisþjónustuna á heimili sínu, en notkun hennar var hlutfallslega mest á meðal stuðningsmanna Viðreisnar og Pírata.
Nokkur munur var á svari viðmælenda eftir tekjum, en mun færri tekjulágir kaupa þjónustuna heldur en þeir sem hafa miklar tekjur. 56% þeirra sem hafa 400 þúsund krónur eða minna í mánaðartekjur svöruðu spurningunni játandi, til samanburðar við 75% þeirra sem hafa milljón eða meira á mánuði.
Hlutfall notenda var nokkuð jafnt milli stjórnenda, sérfræðinga og annars skrifstofufólks, eða um 73%. Hins vegar var það mun lægra meðal starfsmanna í iðngreinum, en þar nam það um 60%. Námsmenn voru aftur á móti langlíklegastir til að vera með streymisþjónustuna, en 88% þeirra svöruðu könnuninni játandi.