Forseti danska þjóðþingsins, Pia Kjærsgaard, segir skrif Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í Kjarnanum lykta af hræsni, móðursýki og „íslenskri minnimáttarkennd.“ Guðmundur svaraði gagnrýninni og segir hana byggjast á sýn stórdanans á Íslendinga. Þetta kemur fram í pistli Piu á vefsvæðinu Information.dk í dag og á Facebook-síðu Guðmundar Andra.
Guðmundur skrifaði pistilinn „Um kurteisi,“ sem birtist fyrst á vefsvæði Kjarnans fyrir rúmri viku síðan. Í þeim pistli fjallar hann um heimsókn Piu til Alþingis á aldarafmæli fullveldisins þann 18. Júlí síðastliðinn og ræðuhöldum hennar á Þingvöllum í tilefni þess. Dönsk þýðing pistilsins var svo birt á Information.dk fyrir þremur dögum síðan, ásamt skýringu á orðinu „Stórdani,“ sem á að lýsa hrokafullu viðmóti Dana í garð Íslendinga.
Handfylli anarkista og einn sósíaldemókrati
Í pistli sínum sem birtist fyrr í dag segir Pia hins vegar að umræðan um heimsókn hennar á Alþingi hafi tekið óvænta beygju með skrifum Guðmundar. Málið hafi hins vegar í upphafi snúist „handfylli anarkískra meðlima Pírata“ ásamt einum sósíaldemókrata sem yfirgáfu hátíðarhöldin við Þingvelli meðan á ræðu hennar stóð vegna hennar persónu. Þar hefur Pia átt við þingflokk Pírata sem sniðgekk hátíðarfundinn á Þingvöllinn vegna komu hennar og Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, sem gekk út af fundinum undir ræðuhöldum Piu.
Með innleggi Guðmundar í umræðuna sé heimsóknin hennar hins vegar sett í sögulegt samhengi um sambandið milli Íslands og Danmerkur í gegnum fleiri árhundruð, þar sem Danmörku sé stillt upp sem eins konar náðarlausum nýlenduherra. Á sama tíma sé henni einnig stillt upp sem Stórdana, eða með öðrum orðum sem gamaldags khaki-klæddum nýlenduherra í Afríku. „Ég hef verið ásökuð um margt á mínum 34 árum í danskri pólitík, en aldrei með slíkum undarlegum hugmyndum,“ bætir Pia við.
Enn fremur segist Pia ekki vita hvernig hún eigi að bera sig að í þessum ásökunum þar sem hún hafi ekki verið fædd þegar Ísland var dönsk „nýlenda.“ Fyrst og fremst finnist henni rök Guðmundar lykta af frekar ósnyrtilegri minnimáttarkennd.
Hræsni og móðursýki
Einnig bendir Pia á meinta hræsni í skrifum Guðmundar vegna gagnrýni hans á þjóðernishyggju í málflutningi hennar auk þess sem hún ali á sundrun, þar sem Íslendingar sjálfir haldi utan um mjög sterkar þjóðarhefðir sjálfir. Því til stuðnings nefnir hún nafnahefð landsins auk íslensku málnefndarinnar og þeirra fjölda nýyrða sem hún hefur skapað á undanförnum árum, en samkvæmt Piu hefur ekki einu sinni flokkur hennar, sem skilgreindur er sem hægrisinnaður popúlistaflokkur, ekki einu sinni stungið upp á viðlíka hreintungustefnu í Danmörku. Þess vegna, að sögn Piu, hljómi skrif Guðmundar hræsnaraleg og móðursjúk.
Enn fremur spyr Pia hvort Guðmundur viti hvaða þróun hann sé að gagnrýna og hversu mörgum innflytjendum Ísland hafi yfirhöfuð tekið á móti. Hún ráðleggur svo Guðmund Andra um að fræðast um stefnu sósíaldemókrataflokka í öðrum Evrópulöndum, til að mynda í Danmörku, en þar hefur flokkurinn tekið upp harðari afstöðu gagnvart innflytjendum.
Sýn stórdanans
Guðmundur Andri svaraði gagnrýni Piu á Facebook-síðu sinni í dag, en þar sagði hann Piu ekki átta sig á tvennu varðandi Íslendinga. Annars vegar byggi gagnrýni hennar á sýn stórdanans á þjóðina, að þeir séu íbúar afskekktrar eyju sem tækju ekki á móti mörgum innflytjendum. Hins vegar sé raunin önnur, en fullt væri af innflytjendum hér.
Hins vegar sagði Guðmundur að virðing fyrir eigin menningarverðmætum, svo sem tungumálinu, sé megin forsenda þess að maður beri virðingu fyrir menningarverðmætum annarra og skilji þörf þeirra til að varðveita ýmislegt úr eigin siðum og arfleifð.