Verðmiðinn á Icelandair nemur nú um 40 milljörðum króna. Hann fór hæst í um 180 milljarða, og hefur því hrapað um 140 milljarða á tiltölulega skömmum tíma, eða um tveimur árum.
Það er til marks um breytta tíma hjá félaginu, að verðmiðinn er nú töluvert undir eigin fé félagsins. Það nemur um 55 milljörðum, sé miðað við stöðuna eins og hún var í lok fyrsta ársfjórðungs.
Frá því að afkomuspá félagsins var uppfærð, 8. júlí síðastliðinn, má segja að kastljósið hafi verið á þessu fornfræga félagi, sem almenningur á að stærstum hluta í gegnum lífeyrissjóði landsmanna.
Í fyrstu viðskiptum eftir að afkomuspáin var leiðrétt niður á við, lækkaði markaðsvirði félagsins um fimmtung og sagði þá í tilkynningu frá félaginu að tími breyttra tíma væri runninn upp, með skipulagsbreytingum og hagræðingu. „Sú staða sem við erum að horfa upp á núna er okkur talsverð vonbrigði. Sú þróun meðalverða sem við gerðum ráð fyrir á síðari hluta ársins virðist ekki vera að ganga eftir og því lækkum við tekjuspá félagsins. Verðþróun á mikilvægum áfangastöðum hefur ekki verið eins og áætlanir okkar gerðu ráð fyrir og það hefur neikvæð áhrif á rekstrarspá. Horfur hafa farið versnandi í íslenska ferðaþjónustuhlutanum, sérstaklega hjá Iceland Travel. Þær miklu skipulagsbreytingar sem félagið hefur gengið í gegnum undanfarið ár hafa að mestu gengið vel og gripið hefur verið til fjölmargra aðgerða í rekstrinum til að styrkja það til framtíðar. Árið 2018 er ár mikilla breytinga og fjárfestinga sem gera félaginu kleift að vaxa og dafna,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri, meðal annars af þessu tilefni.
Síðastliðna 12 mánuði hafa íslenskir aðilar keypt hlutabréf erlendis fyrir 94 milljarða króna.
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) July 31, 2018
Á sama tíma hafa erlendir aðilar keypt íslensk hlutabréf fyrir 18 milljarða króna.
Icelandair er með mikilvægustu fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi vegna umfangs félagsins í íslenskri ferðaþjónustu, sem er hryggjarstykkið í hagkerfinu eins og þróunin hefur verið á undanförnum árum. Um 95 prósent erlendra ferðamanna sem koma til landsins koma í gegnum Keflavíkurflugvöll og er Icelandair umfangsmest þeirra flugfélaga sem fljúga til landsins.
Þá eiga lífeyrissjóðir landsmanna stóran hluta hlutafjár, en Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti eigandi félagsins með 13,99 prósent hlut.
Heildareignir félagsins námu um 1,6 milljarði Bandaríkjadala í lok árs, eða sem nemur um 170 milljörðum króna. Rekstrartekjur á ári hafa verið í kringum 1,3 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 140 milljörðum króna.
Uppgjör félagsins vegna 2. ársfjórðungs verður birt í dag, og fer fram kynningarfundur vegna þess á morgun, þar sem forstjóri og fjármálastjóri félagsins fara yfir reksturinn á tímabilinu.