Fjöldi skráðra gistinátta erlendra ferðamanna fækkaði milli júnímánaða 2017 og 2018, í fyrsta skipti í tíu ár. Samhliða því fjölgaði þó gistinóttum Íslendinga, en þær hafa aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu sem birtar voru í dag.
Hótelgistingum fjölgar um 4%
Samkvæmt talnabirtingunni hélst fjöldi gistinátta nær óbreyttur milli júnímánaða í ár og í fyrra, en hann jókst lítillega úr 1,189 milljónum upp í 1,195 milljónum nótta. Mest fjölgaði gistinóttum á hótelum á tímabilinu, eða um 4%. Rúmur helmingur allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða um 54%.
Framboð gistirýmis, mælt í fjölda herbergja, jókst um 5,5% á tímabilinu. Þar sem fjöldi gistinátta hélst nær óbreyttur lækkaði því herbergjanýtingin, en hún var 77,7% í ár miðað við 80,9% í fyrra. Nýtingin í júní var besta á Suðurnesjum, eða 84,7%.
Gistinætur Íslendinga aukast mikið
Af heildarfjölda gistinátta voru Íslendingar með 163 þúsund þeirra, en það er 21% aukning frá því á árinu áður. Þetta er mesta aukning í fjölda innlendra gistinótta frá fjölgun erlendra ferðamanna til landsins árið 2010 og jafnframt mesti fjöldi innlendra gistinátta sem mælst hefur í júnímánuði.
Á hinn bóginn nam fjöldi erlendra gistinátta 835 þúsundum, sem jafngildir 3% fækkun frá því á síðasta ári. Þetta er langmesta fækkun sem mælst hefur milli júnímánaða frá því mælingar Hagstofu hófust árið 1998. Mynd af þróuninni má sjá hér að neðan.
Fjöldinn hefur ekki sveiflast mikið milli ára, en fækkaði um 1% milli áranna 2007 og 2008. Þess utan hefur hann aukist með nokkuð stöðugum hætti á síðustu tveimur áratugum, en hraða tók á henni eftir árið 2010.