Stjórn fyrirtækisins Iceland Seafood International íhugar möguleikann á skráningu á aðalmarkað Kauphallarinnar. Þetta kemur fram í frétt á vef Fréttablaðsins í morgun.
Iceland Seafood er nú þegar skráð á First North-markað Kauphallarinnar, en forstjóri fyrirtækisins, Helgi Anton Eiríksson, segir nýlega stækkun þess gefa því möguleika á að eiga heima á aðalmarkaðinum.
Stækkun fyrirtækisins fól í sér kaup þess á Solo Seafood síðastliðinn þriðjudag, en bæði sjávarútvegsfyrirtækin skrifuðu undir samning um kaupin, sem nema að andvirði 7,8 milljörðum króna og eru greidd með útgáfu nýrra hlutabréfa.
Samkvæmt síðasta ársreikningi sínum námu tekjur Icelandic Seafood um 30 milljörðum íslenskra króna í fyrra og hefur fyrirtækið 287 starfsmenn. Allt frá skráningu þess á First-North markað Kauphallarinnar í maí árið 2016 hefur hlutabréfaverð fyrirtækisins hækkað um rúm 44%.
Solo Seafood er eigandi spænsku félaganna Icelandic Iberica, Ecomsa og argentínska félagsins Achernar. Með kaupunum munu eigendur fyrirtækisins eignast um 44 prósenta hlut í Iceland Seafood.